29.12.1916
Efri deild: 9. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Magnús Torfason:

Að eins örfá orð út af orðum hv. 2. landsk. þm. (S. E.).— Hann þóttist þurfa að átelja mig, fyrir líkinguna um músina og fjalaköttinn. Það var alveg óþarfi fyrir hann að misskilja orð mín. Það er sitt hvað, lagavald stjórnarinnar yfir embættismönnum, og framkvæmd þess. Jeg ætlaði alls ekki að gjöra að umræðuefni, hvernig sambandi og samvinnu embættismanna og stjórnarráðs væri farið. Jeg endaði líka orð mín um þetta atriði, með því að taka það fram, og jeg undirstrika það nú aftur, að jeg vissi ekki til, að embættismenn hefðu brugðist hlýðniskildu sinni, og þar sem þetta er önnur hlið góðrar samvinnu, ætti að mega ganga út frá því sem vísu, að landsstjórnin hafi komið fram gagnvart embættismönnum landsins svo sem vera ber.