20.12.1916
Efri deild: 3. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

8. mál, niðurlagning Njarðvíkurkirkju og sameining Keflavíkur- og Njarðvíkursókna

Flutnm. (Kristinn Daníelsson):

Jeg get að mestu eða öllu leyti sparað flutningsræðu, vegna nýbreytni þeirrar í þingsköpunum, að greinargjörð skuli fylgja hverju frumvarpi sem skýring á því, og getur sú greinargjörð komið í stað flutningsræðu. En jeg skal að eins geta þess, að jeg flyt málið eftir beiðni beggja sóknarnefnda, og liggur erindi þeirra frammi á lestrarsal Alþingis, undir Ed. nr. 2 1916, og vísa jeg hv. þm. þangað, og eins þeirri hv. nefnd, er væntanlega fjallar um málið.

Það þykir ef til vill undarlegt, að mál þetta skuli vera borið fram nú á aukaþingi, en svo stendur á, að það er búið að vera í smíðum nú í 2 ár, og veldur ýmsum erfiðleikum með innheimtu og annað, og væri því mjög æskilegt, að greiðst gæti úr því nú. Það kynni einnig að þykja undarlegt, vegna þess að lög 16. nóv. 1907 um skipun prestakalla, sem auðvitað eru um leið lög um skipun sókna, gjöra ráð fyrir hvernig megi án lagabreytingar gjöra breyting á skipun sókna, þótt eigi sje hægt að breyta skipun prestakalla nema með nýjum lögum. Nú hefir allur undirbúningur og ráðstafanir samkvæmt 4. gr. nefndra laga farið fram, en þá er til stjórnarinnar kom, taldi hún þessa sóknasameiningu eigi lögum samkvæma, þar sem um var að ræða sameining sókna, er hvor var í sínu prestakalli.

Jeg játa, að stjórnin hafi mikið fyrir sjer í þessu, að venjulega sje ekki unt að sameina sóknir hvora í sínu prestakalli, en á hinn bóginn verður ekki sjeð, að lögin setji í þessu máli neinn þröskuld, þar sem þau heimta þetta ekki beint sem skilyrði, og ekkert er í framkvæmdinni því til fyrirstöðu, að sameiningin komist á, því að hjer hafa báðir prestar komið sjer saman um, að þeir noti Keflavíkurkirkju.

Jeg vona því, að þessari fyrirstöðu frá lagalegri hlið verði hrundið, með því að setja sjerstök lög um þessa sameiningu, og þetta litla og meinlausa mál fái góðan framgang á þinginu.

Að þessari umræðu lokinni legg jeg því til, að málinu verði vísað í nefnd, og þykir best við eiga, að vísa því til mentamálanefndarinnar.