29.12.1916
Efri deild: 7. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

8. mál, niðurlagning Njarðvíkurkirkju og sameining Keflavíkur- og Njarðvíkursókna

Framsm. (Sigurður Jónsson):

Þetta litla lagafrumvarp þarf ekki langrar framsögu með. Greinargjörðin, sem fylgdi því, lýsti því og skýrði það, og svo gjörði flutningsmaður enn frekari grein fyrir því. En þó ætla jeg að láta nokkur orð fylgja því.

Nefndin hefir athugað öll skjöl málsins, og leggur eindregið til að málinu verði vísað til 3. umræðu. Það er að eins 1. gr. frumvarpsins, sem gæti komið til athugunar fyrir deildina; það er formatriði. Hinar greinarnar eru í fullu samræmi við vilja hlutaðeigandi safnaða. Hjer liggur fyrir eitt atriði í hinni nýju stefnu löggjafarinnar, að veita hjeruðum og söfnuðum svo fullan rjett, sem hægt er, og tel jeg þá stefnu rjetta. Ber jeg því þá ósk fram fyrir hönd nefndarinnar, að frumvarpinu verði vísað til 3. umræðu.