10.01.1917
Efri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

27. mál, strandferðaskip

Magnús Kristjánsson:

Jeg þarf ekki að þreyta háttv. deildarmenn með löngu máli.

Jeg býst við að allir sjeu sammála um það, að það sje óhjákvæmilegt að kaupa skip til strandferða, en það er eitt atriði hjá hv. nefnd, er jeg vildi drepa á.

Atriði þetta heyrir raunar fremur til 2. umræðu málsins, en að jeg gjöri það nú, er vegna þess, hversu tíminn er naumur, svo betri tími væri til að gjöra breytingartillögu, ef hennar teldist þörf.

Mjer fyrir mitt leyti, þykir það óviðkunnanlegt, hversu lögin gjöra ráð fyrir fáum strandferðum, og jeg efa það mikillega, að það sje minni þörf fyrir strandferðir vetur en sumar.

Það er alkunna, að ýmsum atvinnuvegum vorum hagar svo, að það er nauðsynlegt fyrir þá, að fólk geti flutt sig úr stað, bæði vetur og sumar, og það getur orsakað mikið tjón, ef það er ekki hægt. Jeg lít því svo á, sem það sje brýn þörf á strandferðum alt árið.

Jeg vil því beina því til háttv. nefndar, hvort hún vilji ekki breyta frv. í þessu efni, því þótt reynslan leiði ótvírætt í ljós, að brýn þörf sje strandferða allan ársins hring, þá mun landsstjórnin eigi taka þær upp, þar sem lögin skorða þær við skemri tíma, og ætlast til að skipið fari og millilandaferðir.

Jeg vona, að háttv. nefnd taki þetta til íhugunar og vænti svars hennar, því ella mun jeg bera fram brtt. hjer að lútandi.