12.01.1917
Efri deild: 20. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

47. mál, bann við sölu og leigu skipa úr landi

Sigurður Eggerz:

Jeg vil taka í sama strenginn og hv. þm. Snæf. (H. St.) og hæstv. ráðherra (S. J.). Mjer skilst, að þessi lög sje nauðsynleg. Það getur rekið að því, að skip hækki svo í verði, að geipifje verði boðið í íslensk skip. Og er því eðlilegt, að freisting skipaeiganda yrði mikil, til þess að selja skipin fyrir offjár, Þetta gæti vel komið fyrir. En hvílík hætta er landinu ekki búin, ef svona færi? Svo lengi sem við höfum nóg kol og salt, getum við lifað, en ef við missum skipin, erum við dauðir. Þessi lög gætu að vísu orðið bagaleg fyrir suma útgjörðarmenn. En þá er að meta hitt meira, að hjer er um nauðsynlega tryggingu að ræða í þarfir lands og þjóðar.

Jeg gat ekki vel skilið hugsanaganginn í ræðu hv. sessunautar míns. (M. T.) Hann virtist eigi skilja, hvort frumvarpið ætti við skip, sem nú eru keypt eða verða keypt. En þetta er auðskilið mál. Frumvarpið á auðvitað bæði við þau skipin, sem eru og verða keypt. En eins og hæstv. ráðherra (S. J.) tók fram, er landsstjórninni heimilað að veita undanþágu á þessu.

Jeg vil enda orð mín á því, að nái þetta frumvarp eigi fram að ganga, getur það orsakað meira tap en það, sem nemur miljóninni, sem fæst með síldartollinum.