12.01.1917
Efri deild: 20. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

47. mál, bann við sölu og leigu skipa úr landi

Sigurður Eggerz:

Jeg vil að eins gjöra stutta athugasemd, en að öðru leyti vísa til fyrri umsagnar minnar um málið.

Jeg vil vekja athygli á því, að hæstv. ráðherra (S. J.) skýrði frá því, að landsstjórnin mundi gefa undanþágur fyrir sölu gamalla skipa, svo að ummæli hv. þm. Ak. (M. Kr.) voru óþörf.

Jeg vil undirstrika það, að jeg vil ekki með þessari lagasetning gefa útgjörðarmönnurn neina vantraustsyfirlýsingu. Jeg vil þvert á móti taka það fram, að jeg tel þá hafa gjört landi og þjóð stórgagn.

Annað mál er það, að þegar þeim er boðið stórfje fyrir skip sín, svo að þeir geta grætt afarmikið á að selja þau, þá er það ekki nema mannlegt, þótt einhver hugsi meira um hag sinn en hag landsins.