12.01.1917
Efri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

40. mál, kaup á eimskipum til vöruflutninga

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg hefi haft þann heiður, að eiga sæti í samgöngumálanefnd hv. Ed., og í samvinnunefnd beggja deilda um samgöngurnar.

En það er nú komið svo, að jeg á ekki lengur fullkomlega samleið með hv. meðnefndarmönnum mínum.

Það er til orðtak, sem segir „hingað og ekki lengra“, og mjer er svo farið, að mjer hefir alt af verið hætt við að sundla, er jeg fer mjög hátt; það er líklega svo mikið af jarðefni í mjer, og er því illa lagaður til þess að fljúga upp til skýja.

Mjer finst, að þegar hv. Alþingi er búið að samþykkja að kaupa eitt strandferðaskip, þá væri nóg komið, er einu milliferðaskipi væri aukið við, en að ganga lengra, og fara jafnvel að kaupa mörg millilandaskip, finst mjer bera meiri keim af ungæðisskap og fljótræði en af skynsemi og rökum.

Jeg skal játa það, að þetta hefir má ske ekki mikla þýðingu, þótt einstöku þingmenn sje að tala um að kaupa mörg skip, því að. það sje ekki hætta á því, að landsstjórnin fari að ganga svo langt í því efni.

En mjer finst það vera með öllu ótilhlýðilegt, að vera að láta það í ljós, sem ekki er vilji þingsins, en að eins gaspur og skvaldur úr einstöku mönnum. Og mjer finst það ósiðlegt og óeðlilegt í hæsta máta, að ætlast til þess, að landsstjórnin hlaupi eins og skopparakringla eftir öllum uppþyrlunum og hugsunarhringli einstakra angurgapa.

Jeg vil taka það fram, að jeg óska þess, að landsstjórnin noti heimildina til að kaupa eitt skip, og jeg kýs miklu fremur, að hún kaupi skip heldur en leigi, vegna þess að jeg tel það hagnað.

En landssjóður á ekki frekar að „spekulera“ í skipakaupum.

Háttv. framsm. (S. E.) talaði með frv. (Sigurður Eggerz: Jeg átti aðallega við eitt skip). Það gleður mig að heyra.

Það er rjett, að einstakir menn hafa minna fje að jafnaði til stórskipakaupa en landsstjórnin hefir nú, og minni tryggingu fyrir lánsfje; en einstakir menn hafa óskiftari vilja, og sterkari hvöt til þess að ráðast í skipakaup en hægt er að búast við, að landsstjórnin hafi.

Þessir menn geta beitt kröftum sínum óskiftum að málinu; þeim verður verkið ljettara og kostnaðarminna en landsstjórninni.

Jeg gæti ekki hugsað mjer, að nein landsstjórn hefði t. d. getað gengið í fótspor Thors Jensen. Jeg býst ekki við, að vjer verðum nokkurn tíma svo heppnir að fá slíka landsstjórn, og vita þó allir, að þessi mikilsmetni maður, sem jeg nefndi, byrjaði bláfátækur. Áhugi og áræði einstakra manna, er miklu meira en hjá nokkurri landsstjórn, og þeir geta verið margfalt áræðnari í gjörðum sínum og því, ef hepni er með, verður árangur og ágóði þeirra meiri en ef fjelög eða opinberar stofnanir gangast fyrir því.

Jeg hirði ekki um að fara lengra út í málið, en skal endurtaka það, að jeg get ekki gengið lengra en að keypt sje eitt millilandaskip.

Mjer finst það vera ábyrgðarhluti að fella frv., og mun því sitja hjá og ekki greiða atkvæði. Jeg vona að hæstv. stjórn hagi sjer skynsamlega og kaupi eitt skip, en gjörist ekki leiksoppur í hendi einstakra fjárbrallsmanna.