12.01.1917
Efri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

40. mál, kaup á eimskipum til vöruflutninga

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Jeg skal ekki vera langorður. Jeg vildi að eins gjöra örstutta athugasemd.

Mjer þykir leiðinlegt hve hv. 4. landsk. þm. (G. G ) liggja þungt orð til frumvarpsins. Jeg hygg að hv. þm. þurfi ekki að óttast, að landsstjórnin kaupi fleiri en eitt skip fyrst um sinn. En það er einlæg ósk mín, eins og hv. þm. Ísf. (M. T.) tók rjettilega fram, að þessi kaup verði gjörð sem allra fyrst. Og varla býst jeg við, að meira en eitt skip verði keypt til millilandaferða nú í bráðina. Jeg er sannfærður um, að treysta má landsstjórninni til þess, að misbrúka ekki þá heimild, sem henni er veitt með þessu frv. Fari hins vegar svo, að landsstjórninni þyki þurfa að kaupa fleiri en eitt skip, þá er sú heimild auðvitað sjálfsögð. Jeg vil þess vegna mæla eindregið með því, að stjórnin gengist sem allra fyrst fyrir kaupum, að minsta kosti, á 1500—2000 tonna skipi.

Jeg vil taka það fram, áður en jeg lýk máli mínu, að þó að landsstjórnin ráði farstjórn skipanna, samkvæmt frv., þá er fastlega til þess ætlast af samgöngumálanefndinni, að eimskipafjelagsstjórninni verði falið að reka útgjörðina eða hafa farstjórnina með höndum, enda hefir eimskipafjelagsstjórnin heitið nefndunum því.

Nú rjett í þessu hefir mjer borist til eyrna, að eimskipafjelagsstjórnin hafi keypt nýtt skip, sem heitir Lagarfoss, og er ástæða til að gleðjast yfir því.