12.01.1917
Efri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

40. mál, kaup á eimskipum til vöruflutninga

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg tók það fram áður, að ef gjört væri mikið að skipakaupum, þyrfti mikið fje. Og það á illa við, að aukin sje útgjöld landssjóðs, sama daginn og tekjulindir hans eru styflaðar, eða rjettara sagt hjálparmeðölum hans kipt í burt, eins og hv. 1. landsk. þm. (H. H.) tók fram. Jeg tel rjettast, að aka hjer skynsamlega seglum eftir vindi. Annars vil jeg taka undir það með hv. 2. þm. G.-K. (K I).), að jeg er mjög óánægður með frammistöðu hv. Nd. í þessu máli. Jeg vildi helst, að frv. hefði náð fram að ganga í sömu mynd og það var upphaflega frá samvinnunefndinni.

Eitt er enn ótekið fram viðvíkjandi þessu máli. Það er um farstjórnina. Við höfum skriflegt og munnlegt tilboð frá stjórn Eimskipafjelagsins um, að hún vilji taka að sjer farstjórn á þessu eina skipi, strandferðaskipinu. En það er ekki þar með sjeð, að hún mundi vilja annast farstjórn margra landssjóðsskipa, sem yrðu keppinautar Eimskipafjelagsins. Að minsta kosti er valt að treysta því. Það er alt öðru máli að gegna með strandferðaskipið, sem mundi verða fjelaginu til stórhagnaðar.