12.01.1917
Efri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

40. mál, kaup á eimskipum til vöruflutninga

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Það er hreinn og beinn misskilningur, að við viljum fara í bág við hagsmuni Eimskipafjelagsins með því, að heimila landsstjórninni að kaupa fleiri en eitt skip. Og við höfum átt fund með eimskipafjelagsstjórninni, þar sem hún játaði, að skipakaup landssjóðs færu eigi í bág við hagsmuni sína. Við höfum því fengið játningu hennar fyrir því, að hjer sje ekki um neina samkepni að ræða, af hálfu landssjóðs. Jeg býst líka við, að menn muni líta svo á, að hagsmunir Eimskipafjelagsins sje hagsmunir landsins í heild sinni. Frá sjónarmiði Eimskipafjelagsins getur þess vegna ekkert verið, sem mæli á móti þessum skipakaupum.

Líka komst það til tals í nefndinni, að Eimskipafjelagið keypti skipið. En það þótti ekki aðgengilegt, því að ef svo færi, að skip fjellu í verði, yrði erfiðara fyrir það að bera tjónið, heldur en landssjóð.

Þetta mál þyrfti að vera afgreitt með sem flestum atkv. í báðum deildum, svo að stjórnin yrði því öruggari til skipakaupa.