12.01.1917
Efri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

22. mál, fasteignamat

Eggert Pálsson:

Það er ekki neinn tími til að hafa langar umræður. Vil jeg að eins segja fá orð. Jeg hygg, að þetta frv. sje aðallega fram komið fyrir tilmæli fasteignamatsmanna í Rangárvallasýslu. Þeir hafa sent þinginu áskorun, er legið hefir frammi á lestrarsalnum, þess efnis, að þingið vildi breyta eða skýra 9. gr. fasteignamatslaganna. Þessi ósk eða áskorun verður að teljast eðlileg, þar sem lögfræðingar ýmsir hafa skilið eða skýrt greinina á annan veg en Alþingi ætlaðist til, er það samdi lög þessi. Það er því full ástæða til að taka af allan vafa.

Jeg lít nú svo á, að hv. Nd. hafi komist að sömu skoðun, sem löggjafinn komst að áður, og sýnt það með 2. gr. þessa frv. hvernig hún ætlast til að skilja beri 9. gr. umræddra laga. Og þótt svo fari, að þetta frv. verði ekki útrætt á þessu þingi, vegna tímaskorts, þá hygg jeg, að hjer sje fengin, af gjörðum hv. Nd., nægileg skýring fyrir matsmenn og aðra, hvernig umrædd lög skuli skilja í þessu efni.

Þótt jeg hefði helst kosið, að þessi lög hefðu verið afgreidd hjer í deild, eins og í Nd., þá get jeg þó nokkurn veginn sætt mig við það, þar sem ekki er um annað að tala en að frv. bíði næsta þings, því að matsmenn geta þrátt fyrir það, haldið starfi sínu áfram með þann rjetta skilning á 9. gr. fasteignamatslaganna, sem sýndur er með 2. gr. þessa frv.