12.01.1917
Neðri deild: 23. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

6. mál, bakarabrauð

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með þá brtt. við þetta frv., að í stað 2% komi 4% og að í stað 1% komi 2%. Bakarar hjer í bæ hafa snúið sjer til mín með þetta mál. Þeir bera það fram, að þeim sje ómögulegt að vera vissir um að fullnægja ákvæðum frv., eins og það nú liggur fyrir. Brauðin geti sjerstaklega orðið misjafnlega þung, af því að þau ljettist bæði við að geymast og eins geti þyngdin dálítið farið eftir því, hvar þau eru sett í ofninn. Jeg tel betra að hafa lögin ofurlítið rýmri, svo hægt sje að heimta, að þau sjeu haldin, og beita megi þá refsiákvæði laganna, ef út af er brugðið.

Jeg tek þetta trúanlegt, er bakarar hafa tjáð mjer, og vona að aðrir háttv. deildarmenn gjöri það sama.