11.01.1917
Efri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

28. mál, verslunarlóð Bolungarvíkur

Magnús Kristjánsson:

Jeg minnist þess, að þetta mál er gamalkunnugt hjer á þingi, og að það sje nokkuð skylt tillögu, er Skúli heitinn Thoroddsen bar fram, og Nd. sýndist við nánari athugun ýmislegt að athuga við. Jeg er ekki kunnugur þarna á þessum stað, svo að jeg geti dæmt um hvort þetta fyrirkomulag er heppilegt, en jeg þykist vita, að þetta land er að sumu leyti eign landssjóðs og að sumu leyti eign verslunar. En það er óhætt að fullyrða það, að það er mikill ágreiningur í þessu efni, hver takmörkin skuli vera, því það getur snert hagsmuni tveggja atvinnuvega, hvernig framkvæmdin verður. Ef það er satt, sem jeg hefi grun um, að hingað til hafi ekki verið leyft að nota reim næst sjónum sem verslunarlóð, vegna þess, hún væri notuð fyrir uppsátur, þá skiftir miklu máli hvernig takmörk verða dregin.

Það væri æskilegt að hv. þm. Ísf. (M.T.) vildi skýra þetta mál fyrir deildinni. Jeg verð að játa minn kunnugleika eigi nægan, en er hins vegar tregur að greiða því atkvæði mitt, ef það kemur í ljós, að það er til tjóns fyrir þann atvinnuveg, er jeg nefndi. Það er nauðsynlegt að vita það rjetta í þessu, og hvað veldur því, að menn á þingi hvað eftir annað koma með þetta, en færa engar ástæður fyrir því.