11.01.1917
Efri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

28. mál, verslunarlóð Bolungarvíkur

Magnús Torfason:

Jeg á bágt með að gjöra gagngjörða grein fyrir þessu máli, því jeg hefi ekki annað fyrir mjer en það, sem jeg hefi talað um það við hv. þm. N-Ísf. (Sk. Th.); því eins og hv. þm. Ak. (M. K.) veit, þá snertir þetta ekki mitt kjördæmi. Hins vegar hefir það ekki komið til minna aðgjörða sem oddvita sýslunefndar N.-Ísf. enn þá, en gjörir það á sínum tíma, ef þetta frv. verður samþykt, og þykist jeg vita, að þá fái allir, sem hjer eiga hlut að máli tækifæri til þess, að koma fram með sínar ástæður. Jeg held, að það sje óhætt að lýsa því yfir hjer, að það er ekki meiningin með þessu frumvarpi, að ganga á rjett nokkurs atvinnurekanda á nokkurn hátt, og landssjóður hefir hjer einnig hagsmuna að gæta í framtíð frá því að Vatnsfjarðarprestakall verður veitt næst.

Vatnsfjarðarkirkja á malartolla að helming við landeigendur á svæði því, er hjer er um að ræða. Og einmitt af þessari ástæðu virðist mjer að eigandinn hafi fylstu tryggingu fyrir því, að ekkert verði afráðið fyr en till. frá öllum hliðum eru teknar til greina, líka af hendi landssjóðs.

Jeg verð því að líta svo á, þar sem stjórnin hefir úrskurðarvald í þessu máli, þá sje engin ástæða fyrir deildina að vantreysta henni til að gæta allrar varúðar í þessu máli, og gjöra það, sem rjett er og sanngjarnt.