11.01.1917
Efri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

28. mál, verslunarlóð Bolungarvíkur

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg leit svo á, að það væru stórmál og nauðsynleg, sem þetta þing ætti að hafa til meðferðar, og gjöra ekki mikið að því, að eyða tímanum með smámálum og óþörfum, og finst mjer að hjer sje eitt þeirra, er gæti vel beðið til næsta þings. Jeg skil ekki í því, hvers vegna ekki er notast við gildandi lög nr. 37, 20. okt. 1905, og eftir þeim litla kunnugleik, er jeg hefi af þessu, sýnist mjer rjett, að athuga þetta nánar áður en til lykta er leitt. Það er vitanlega nokkur trygging, þar sem sýslunefnd N.-Ísf. á að ákveða takmörkin en ekkert gjörir til, þótt athugað sje nánar.

Jeg hefi litið svo á, sem þessar Malir sje gjöf til Vatnsfjarðarkirkju og að henni fylgi sú kvöð, að þær sje einungis til nota handa sjómönnum til uppsáturs og bygginga verbúða. Nú ef svo er, þá má þing og stjórn ekkert gjöra, er getur komið í bág við upphaflega gjafabrjefið, því hjer er um gjafafje að ræða. Ef nú að Malirnar verða mældar til verslunarlóða, getur það orðið til þess, að útiloka vjelbáta og smábáta þar frá uppsátri eða frá því, að byggja þar sjóbúðir. Og því fremur er þetta ekki rjett, ef verslunarlóðirnar geta verið sjer að meinalausu nokkrum föðmum ofar, og það getur ekki valdið neinu erfiði; að eins að verslanirnar leggi brautir frá sjónum heim.

Jeg vil því styðja till. hv. þm. Ak. (M. K.), þar sem um smámál, lítt þarft mál og varhugavert er að ræða, og tel því rjett að setja það í allsherjarnefnd.