11.01.1917
Efri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

28. mál, verslunarlóð Bolungarvíkur

Magnús Torfason:

Jeg skal að eins taka það fram, að mjer finst engin ástæða til að óttast, að Bolvíkingar fari að skerða „pláss“ til uppsáturs. Fiskveiðar eru aðalatvinnuvegur þeirra, og næstum eini atvinnuvegur, og finst mjer því ganga furðu næst, að láta sjer í hug koma, að hreppsnefnd og sýslunefnd gjöri nokkuð í þá átt. Jeg tel þetta vantraust til hlutaðeigandi stjórnarvalda, sjerstaklega, er þess er gætt, að þetta hreppsfjelag hefir með tilstyrk landssjóðs og sýslusjóðs varið, og mun verja, tugum þúsunda til að bæta lendinguna þarna, án þess eigandi þessarar lóðar eða malarlengju hafi lagt einn eyri til þessarar stórfenglegu jarðarbótar. Tel því enga ástæðu til að vísa þessu í nefnd nú, þar sem málið er svo langt komið. En úr því jeg mintist á verslun þarna, get jeg eigi látið hjá líða, að geta þess, að mjög hefir mönnum verið gjört örðugt fyrir, að koma upp verslunum á þessum stað, og framleiðendur því fengið minna fyrir afla sinn en mátt hefði vera.