08.01.1917
Efri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

18. mál, rannsókn á hafnarstöðum

Guðjón Guðlaugsson:

Það er hjerna svolítil brtt. á þgskj. 66. Er hún á þá leið, að inn í þingsál.till. bætist á eftir Þaralátursfirði „og Kollafirði í Strandasýslu“. Nd. bætti Þaralátursfirði inn í till., en sá fjörður er skamt fyrir austan Horn. Úr því nú mælingaskip verða að fara þangað austur eftir, þá sýndist oss rjett, að Kollafjörður, sem er skamt frá Steingrímsfirði, væri tekinn með.

Svo er til háttað, að fyrir framan fjörðinn er skerjaklasi, en tvær góðar leiðir eru inn í hann. Fjörðurinn sjálfur er skerjalaus að heita má og allur ein góð höfn, eða heldur margar hafnir, því stærðin er næg til þess. Leiðirnar inn fjörðinn eru áreiðanlega nógu djúpar fyrir allstór skip, en menn þora samt ekki að hætta skipum sínum í að fara þar inn, vegna þess að þær standa ekki á kortum.

Við fjörðinn er enginn kaupstaður. Ástæðan fyrir því, að líklegt er að umferð verði mikil um fjörðinn er því ekki sú, að verslun sje þar rekin svo nokkru nemi En síðan 1914 er þar löggilt höfn í Stóra-Fjarðarhorni. Stendur svo á löggilding hennar, að postulínsnáma, löngu þekt, er í Mókollsdal, sem liggur fram frá Stóra-Fjarðarhorni. Þessi náma var skoðuð af enskum sjerfræðingum í þeirri grein sumarið 1914. Leitst þeim vel á hana og kváðu postulínsleirinn þar vera einhverja þá bestu postulínsjörð, sem til væri. En nokkru áður en rannsókninni væri að fullu lokið gaus upp heimsstyrjöldin, og voru þá útlendingarnir kallaðir heim til sín.

Síðan þetta gjörðist hefir ekkert verið gjört í þessu námumáli. En líklegt þykir mjer, að því verði haldið áfram, og að það komist í framkvæmd að ófriðnum loknum. Fyrirtæki þetta er mjög þarft og arðsamt, ef náman reynist góð, en til þess að geta rekið þar námugröft, þarf að leggja járnbraut milli námunnar og hafnarinnar. Þá braut ætluðu menn sjer líka að leggja, ef farið væri að nota námuna. Ef slíkt kæmist í framkvæmd gæti það vel orðið til þess, að draga úr hræðslu Vestfjarðabúa og vantrú þeirra á járnbraut, því þá fengju þeir þó að sjá, hvað járnbraut getur þýtt; en hvorki járnbrautin nje hin löggilta höfn getur komið að tilætluðum notum, nema mæld og viðurkend leið sje þekt inn á fjörðinn, til þess að skip þau, sem flytja eiga postulínsleirinn þaðan geti farið út og inn fjörðinn. Mælingin er því höfuðskilyrði fyrir þetta fyrirtæki.