08.01.1917
Efri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

18. mál, rannsókn á hafnarstöðum

Ráðherra Sigurður Jónsson:

Þessari fyrri umræðu málsins vildi jeg gjarna láta fylgja nokkur orð til skýringar.

Það er kunnugra en frá þurfi að segja, hve stórkostlega sjávarútvegur landsmanna hefir aukist á síðustu árum. Hefir slíkt hvað eftir annað verið viðurkent af þingi og stjórn, sem á ýmsan hátt hafa hlynt að þessari atvinnugrein. bæði með byggingu vita og ýmiskonar rannsóknum á lendingum o. fl.

En í Austfirðingafjórðungi hefir enn sama og ekkert verið gjört í þessa átt, og stafar það sjálfsagt að miklu leyti af því, hve auðugur sá fjórðungur er af góðum höfnum. Annars er sjávarútvegur þar mikið stundaður, mest á smábátum. En óhætt að fullyrða, að um 100 bátar ganga um sumarvertíðina til fiskveiða á svæðinu frá Vopnafirði til Berufjarðar, og samkvæmt landshagsskýrslunum síðustu eru fluttar til útlanda þaðan sjávarafurðir fyrir um 2 miljónir króna. Auk þess er fiskurinn mjög mikið brúkaður heima í hjeruðum, svo bersýnilegt er, að hjer er ekki um neinn smávegis atvinnuveg að ræða. En tíminn, sem fiskast á, er stuttur, að eins 4 mánuðir, frá miðjum maí til miðs október. Er því síst að undra, þótt menn langi til að lengja veiðitímann, en það gæti orðið með því, að senda báta suður með landi um vetrarvertíðina. Þetta gjöra menn líka dálítið, og hafa þá stundum aflað á 3—4 vikum jafngildi alls sumaraflans í fiski. En slíkar ferðir eru mesta háskaspil. Verða bátarnir að láta sig reka fyrir straumi og veðri, og eiga hvergi hæli eða höfn til að flýja í, því Berufjörður er ekki fær nema í björtu og góðu veðri.

Til þess nú að bæta úr þessu og gjöra útvegsmönnum hægra fyrir að stunda atvinnugrein sína, þarf að rannsaka hvar helst yrðu bættar lendingar á umgetnu svæði. Mundi þá fara um fjárframlag til þess, eins og vanalega á sjer stað, er um fjárframlög landssjóðs til sjávarútvegarins er að ræða, að það mundi margborga sig, að minsta kosti meðan útvegurinn er stundaður á líka lund og nú á sjer stað. Hjer eiga líka 2 sýslufjelög hlut að máli, og ekki þykir mjer ólíklegt, að Austur-Skaftafellssýsla nyti og góðs af að einhverju leyti. — Annars vísa jeg til háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) um þetta mál, sem mun þekkja vel til á þessu svæði.

Brtt. og viðaukatill. finst mjer að hv. deild ætti að fallast á, og mæli jeg yfirleitt hið besta með því, að þetta mál nái fram að ganga.