09.01.1917
Efri deild: 15. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

18. mál, rannsókn á hafnarstöðum

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Brtt. sú, sem hjer liggur fyrir, fer fram á, að bæta við einum sjerstökum stað, sem hefir mjög mikla þörf á góðri lendingu. Jeg þarf varla að mæla mikið með henni. Allir munu vera sammála um nauðsynina yfirleitt. Eins og hv. deild er kunnugt, liggur fyrir till. frá síðasta Alþingi, sem alment felur stjórninni rannsókn hafnarstaða. Og þar sem nú hefir komið aftur fram till. þess efnis, þá sýnir það best þörfina.

Útvegurinn er alt af að aukast; botnvörpungarnir eru engra smámenna meðfæri, en aftur á móti getur almenningur kostað vjelbátaútgjörð, því hún er ekki svo afar dýr, en þar stendur aftur hafnleysið þeim fyrir þrifum. Jeg efast ekkert um, að allir hv. deildarmenn eru meðmæltir brtt. þeim, sem fram hafa komið og samþykki þær.

Jeg ætla að eins að fara nokkrum orðum um brtt. á þgskj. 112. Eiginlega eru þær tvær. Hin fyrri liggur í augum uppi. Þar er að eins breytt eintölu í fleirtölu. Hin síðari fer fram á, að bætt verði inn í Gerðum í Gullbringusýslu. Ástæðan fyrir því, að jeg kem fram með þessa till. er sú, að einmitt nú um þingtímann, hafa menn þar setið á fundi og rætt um, hvernig úr þessu skyldi bæta, og hefir verið skotið til mín, að gjöra nokkuð fyrir það. Hv. deildarmönnum eru öllum kunnugar, að minsta kosti að nafni, veiðistöðvarnar Garður og Leira, að það hafa verið taldir einhverjir fiskisælustu staðir við Faxaflóa. En nú horfir til vandræða, því útvegur á opnum bátum er að verða lítt mögulegur, vegna vjelbátanna, sem nú er orðið svo mikið af, en vegna hafnleysis er ekki hægt að hafa þá þarna. Og í nágrannahöfnunum, t. d. Sandgerði, komast varla fleiri bátar að en þegar eru komnir. Ef ekki verður bætt úr þessu, vofir hætta yfir sveitarfjelaginu. Auðvitað á þingið ekki fyrst og fremst að hugsa um einstök sveitafjelög í þessu efni, heldur hvað ágóðavænlegast er fyrir landið í heild sinni, en eins og hagur eins er hagur allra, svo getur og á einstökum stöðum verið sjerstök knýjandi nauðsyn, eins og á þessum stað.

Jeg skal svo ekki þreyta hv. deildarmenn með lengri ræðu, en vænti þess, að þessi brtt. megi bætast við þingsál.till., og að hún nái fram að ganga, enda þótt almenna till. sje til frá síðasta þingi, og stjórnin geti samkvæmt henni valið staði til rannsóknar, eftir því sem mest er nauðsyn.