11.01.1917
Efri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

30. mál, lán til flóabáta

Framsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Samgöngumálanefndinni duldist ekki, að eitt strandferðaskip væri allsendis ónógt til þess að fullnægja samgönguþörfum landsmanna. Þess vegna lagði hún til, að flóabátaferðum yrði komið á, þar sem þörfin á auknum samgöngum er brýnust. Einkum leit nefndin svo á, að þessi þörf væri mest á Húnaflóa og þar næst á Austfjörðum. Þar eru margar hafnir, sem þurfa að koma frá sjer miklum flutningi. Sumar þessara hafna eru smáar og krókótt leið inn á þær. Væri því hentugast, að flóabátar gengju á slíkar hafnir en strandferðaskipið á aðalhafnirnar. Nú er svo ástatt, að Austfirðin eiga von á einum leigubát. Þessu er öðruvísi farið um Húnaflóa. Hann hefir orðið mjög svo út undan, þrátt fyrir það, að flutningar eru þar mjög miklir, einkum frá Ísafirði, svo að eitt strandferðaskip mundi ekki koma þar að fullum notum.

Hv. 1. þm. Rang. (E. P.) gat þess, að strandferðaskipinu væri áætlaðar of margar hafnir, svo að vafi gæti leikið á, að flóabátarnir hefðu nóg að flytja. En jeg hygg, að ótti við það sje alveg ástæðulaus. Bæði er það, að strandferðirnar eru fáar og svo eru margar hafnir, sem eigi hafa verið teknar í áætlunina, t. d. Álftafjörður. Aðalvík, Hornvík o. fl. Enn fremur er að rísa upp mikill staður við Ingólfsfjörð, sem verður líklega ekki minni en Siglufjörður með tímanum. Þaðan voru fluttar yfir 10,000 tunnur af síld í sumar. Auðvitað flytja flóabátarnir ekki síld. En þegar staðurinn er upp risinn, myndast verkefni fyrir flóabátinn, að flytja landsafurðir og fóðurefni um allan flóann. Bending í þessa átt er það líka frá nefndarinnar hálfu, að hún slepti þessum höfnum af áætlun strandferðaskipsins. Enda er flóabátur sjerstaklega hentugur á alla þessa staði.

Af því að þetta mál er nú til fyrri umr., skal jeg geyma mjer að fara nánar út í það, þangað til við síðari umr.