12.01.1917
Efri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

30. mál, lán til flóabáta

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Þessi þingsályktunartillaga fer í þá átt að heimila landsstjórninni að veita hlutaðeigandi hjeruðum alt að 20.000 kr. styrk, og lán ef með þarf, sem nemi allt að 90,000 kr. það er ætlast til, að þessir bátar verði eigi minni en 100 smálestir. En að því er snertir Austfjarðabátinn, þá hefir nefndin hugsað sjer, að vel gæti komið til mála, að þeir yrði fleiri en einn, en nytu þó sama styrks úr landssjóði og hinir bátarnir hver fyrir sig.

En um Húnaflóabátinn er það að segja, að ekkert hefir verið fastályktað um hann enn þá. Það kom til tals í nefndinni, að landssjóður keypti bátinn og leigði hann síðan hlutaðeigandi hjeruðum, til þess að málið kæmist sem fyrst í framkvæmd. Vjer höfum beðið formann Eimskipafjelagsins að leitast fyrir um kaup á bátnum, og hann lofaði að láta oss vita, ef hann gæti komist að aðgengilegum kaupum. En til þess að hægt yrði að svara því tilboði játandi, þyrfti maður að hafa eitthvað annað til þess að byggja á en laust umtal um málið. Jeg get nú að vísu eigi búist við svo skjótu andsvari. Það hlýtur að taka nokkurn tíma. Málið er enn óborið undir sýslunefndir í Húnavatns- og Strandasýslu og bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar. Það á því langt í land enn þá. En það er þó mín skoðun, að á þessum stöðvum þurfi einna helst á báti að halda. Strandferðaskipið fullnægir ekki nándar nærri samgönguþörfum vorum, með því líka, að millilandaskipin koma nú alls ekki við á sumum þessum höfnum. Þegar því hlutaðeigandi hjeruð þurfa einvörðungu á strandferðaskipinu að halda, dylst mjer ekki, að þeim er brýn nauðsyn á að eignast flóabát, og það sem allra fyrst. Jeg sje nú, að jeg hefi verið alt of huglaus, að reyna ekki að berja það í gegn, að landssjóður keypti bátinn. Þau kaup hefðu alveg verið hættulaus fyrir landsjóð. En það er ekki til neins að sakast um orðinn hlut.

En hins vegar verð jeg að lýsa yfir því, að þó að til þess sje vitnað í nefndinni, að líkur bátur þeim sem hjer um ræðir, er gekk um Húnaflóa fyrir nokkrum árum, hafi eigi borið sig, að ástæðurnar hafa breytst mikið síðan. Fyrst og fremst er það, að sá bátur var miklu minni en gjört er ráð fyrir að þessi verði, — að eins 25 smálestir. Hann hafði allt af nægan flutning. En farþegjarúmið var svo lítið, að það rúmaði ekki nema 6—10 farþegja. En aðalástæðan til þess, að báturinn borgaði ekki kostnaðinn, var þó sú, að hann gekk árið, sem bestar samgöngur voru um Húnaflóa Þá kom strandferðaskipið til dæmis sex sinnum sumarsins á Hólmavík, og millilandaskip sameinaða fjelagsins tvisvar að vetrinum og tvisvar að sumrinu, hæði í júní og júlímánuði, og enn fremur Björgvinjarskipin í hverri ferð á Hólmavík. Það er því um ólíkar kringumstæður að ræða, sem hafa bæði bein og óbein áhrif bæði á notagildið og fjárspursmálið

Það er gjört ráð fyrir, að Austfjarðabáturinn verði 100 smálestir að stærð, vegna þess, að hann þurfi að koma á svo margar hafnir, þar sem framleiðsla er mikil og því oftast nægur flutningur. En það er einnig ráðgjört, að Húnaflóabáturinn rúmi 100 smálestir. Ekki þó eingöngu vegna þess, að hann mundi alt af hafa nægan flutning, heldur og meðfram af því, að svæðið, sem honum er ætlað að fara um, er hættulegra, sjerstaklega vetrarferðir fyrir Horn. Það er líka ástæðulaust að óttast, að báturinn hefði ekki nægan flutning. Hann mundi verða mikið notaður af Ísfirðingum og Steingrímsfirðingum, og svo mundi hann mynda ný sambönd við Ingólfsfjörð.

Jeg skal svo ekki lengja þessar umræður frekar.