12.01.1917
Efri deild: 21. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

43. mál, skipagöngur sameinaða gufuskipafélagsins

Framsm. (Sigurður Eggerz):

Jeg býst við, að menn hafi nóg við tímann að gjöra, þar sem vjer eigum eftir 2 fundi enn þá í kvöld. Skal jeg því vera stuttorður.

Þann 7. ágúst 1909 var gjörður samningur um póstgufuskipaferðir milli Kaupmannahafnar, Íslands og Leith, milli stjórnar dönsku innanríkismálanna og stjórnar Íslands annars vegar og sameinaða gufuskipafjelagsins hins vegar. Framhaldsamningsins var gjört 26. nóvember 1912.

Samkvæmt samningnum var sameinaða fjelaginu skylt að halda uppi stöðugum gufuskipaferðum milli Kaupmannahafnar og Leith annars vegar og Íslands hins vegar, samkv. áætlun, sem þá var nánar tiltekin. Gjaldskrá, samkvæmt samningnum yfir fargjöld og farmgjöld, skal árlega samþykt af hlutaðeigandi stjórnendum og mega gjöldin eigi vera hærri en tiltekið er í samningi fyrir árin 1908—1909 um gufuskipaferðir milli Danmerkur og Íslands, og Leith og Íslands, hvora leiðina.

Samningurinn gildir fyrir árin 1910— 1919, að báðum árum meðtöldum. Ísland greiði ekki beinlínis neitt til ferða þessara.

Skjöl þau, sem legið hafa fyrir samgöngumálanefndinni, sýna málaleitun sameinaða fjelagsins, um að losna við samninginn, og skoðanir þess á honum.

Í brjefi til dönsku innanríkisstjórnarinnar, dagsettu 11. október 1916, fer sameinaða gufuskipafjelagið þess á leit, að samningurinn verði úr gildi feldur. Segir það, að ómögulegt sje að halda fastákveðnum ferðaáætlunum og að danski styrkurinn megi falla niður. Fjelagið tekur að vísu fram, að það ætli að halda áfram siglingum, en — eftir sínu höfði.

Fjelagið boðar enn fremur, að það ætli að hækka fargjöld og farmgjöld upp úr því, sem þau hafa verið, og lætur þess getið, að landið styrki Eimskipafjelag Íslands, sem sje keppinautur sinn. Fyrir nefndinni hefir og legið umsögn aðalpóststjórnarinnar dönsku um málið, og vill hún taka sumar af kröfum fjelagsins til greina, t. d. leyfa því ýmsar takmarkanir á ferðaáætlun og jafnvel auk þess hækkun, en vill að það sigli eftir ákvæðum samningsins.

Eins og fylgiskjal I. sýnir, hefir nú sameinaða gufuskipafjelagið, að því er virðist, án þess að bíða eftir svari íslensku stjórnarinnar, sem var þó annar aðilinn í samningsgjörðinni, ákveðið að hækka fargjöld og farmgjöld um 50—100%, í beinu stríði við samninginn, og enn hefir fjelagið ákveðið breytingar á ferðunum oss í óhag.

Eftir nákvæma íhugun hefir samvinnunefndin komist að þeirri niðurstöðu, að ekki sje á neinn hátt hægt að segja, að hinn upphaflegi samningsgrundvöllur sje breyttur. Að vísu er það rjett, að siglingar eru nú dýrari og kostnaðarmeiri en áður, en ekkert er því til fyrirstöðu, að fjelagið geti fullnægt samningnum. Engin þau atvik liggja fyrir, er sýna, að ómögulegt sje fyrir fjelagið að fullnægja samningnum. Og jeg hygg, að í Danmörku hafi nýlega fallið dómur í Sö- og Handelsretten í þá átt, að kolakaupmenn (Dansk Kul og Kokes Compagni), sem fyrir stríðið voru búnir að gjöra samninga um kolakaup í stórum stíl, en neituðu, vegna stríðshækkunar, að láta kolin af hendi fyrir umsamið verð, voru dæmdir til að fullnægja samningnum, með því að kolin voru fáanleg, þótt dýrari væru. Líkt stendur á hjer. Fjelagið getur eins og allir vita fullnægt samningnum. Skipastól hefir það nógan, og nóg hefir það grætt á oss, þótt það græði ekki sjerstaklega á þessum Íslandsferðum einnig. Nefndin leggur því eindregið til, að þingsályktunar till. á þingskjali 97 verði samþykt, og skorar fastlega á stjórnina að halda fast fram kröfum vorum í þessum efnum.

Nefndin býst við að sameinaða fjelagið muni vera nokkuð uppvöðslusamt, af því það hefir átt því að venjast, að vjer höfum verið því eftirlátir, á meðan oss var ekki vaxinn svo fiskur um hrygg, að vjer þyrðum að hugsa þá hugsun, að ráða sjálfir yfir siglingum vorum. Og nú býst jeg við að það muni halda, að það geti haldið þessum gamla hætti, — þeim hætti, að bjóða okkur það, sem því best þóknast.

En jeg hygg að, vjer Íslendingar höfum alvarlega raknað úr rotinu. Árið 1913, þegar sameinaða fjelagið ætlaði að hræða oss frá því, að leggja fje í Eimskipafjelagið, með því að hóta oss, að taka tilboð það um strandferðir til baka, er það hafði gjört þáverandi ráðherra, ef vjer legðum fje í Eimskipafjelagið, þá vöknuðum vjer úr dvalanum við kreptan hnefa fjelagsins. Þá lifðu, eða fyrir þann tíma lifðu, ýmsir í þeirri trú, að það gæti ekki borgað sig að sigla á milli landa. Nú er sú trú horfin. Nú er það vitanlegt, að siglingar milli landa geta verið og eru arðsöm fyrirtæki. Og nú hygg jeg, að menn alment skilji það, hvað vinsamlega þetta fjelag hefir reynst okkur frá því fyrsta. Og nú síðasta vináttubragðið er það, að reyna að kippa að sjer hendinni á þessum ófriðartímum, að bregðast þeim samningum, sem vjer gjörðum við það, og sem vjer vitanlega höfum tekið til greina, er vjer lögðum okkar siglinga-„plan“.

Viðurlög fyrir samningsrof er 1000 kr. fyrir ferðina og er þó næsta lítið. En fyrir farm- og fargjaldahækkun ætti að nægja að gjöra skaðabætur, þar sem hækkunin er ekki samþykt af stjórnarráði Íslands.

Í því trausti að stjórnin reki erindi lands vors í máli þessu röggsamlega, leyfi jeg mjer að mæla með því að þingsályktunartillagan verði samþykt.