09.01.1917
Efri deild: 15. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

37. mál, lánveiting til raflýsingar á Ísafirði

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg hygg, að þótt nefndarálitið á þgskj. 88 sje ekki langt, þá sje það nógu skýrt, svo að ekki þurfi mörgum orðum um það að fara. Það er eins og öllum hv. þm. er kunnugt, að fyrir síðasta þingi lágu lánveitingabeiðnir, til þess að koma upp hjá sér raflýsingu, frá ýmsum kaupstöðum, og þar á meðal var Ísafjörður, og var öllum þeim veitt áheyrn. Og fjárlögin bera það með sjer að Ísafirði voru veittar 45,000 krónur að láni til raflýsingar. Þá var litið svo á, að kostnaður við raflýsingu á Ísafirði mundi nema 100,000 krónum. En nú er upplýst, að vegna dýrtíðarinnar muni kostnaðurinn ekki vera 100,000 krónur, heldur 200,000 krónur, og með því má álíta samræmi að veita nú helmingi meira lán. Þar sem síðasta þing veitti 45,000 króna lán, þá ætti í samræmi, við það að veita nú 90,000 krónur alls, eða 45,000 krónur í viðbót við það, sem síðasta þing veitti.

Upphaflega var hámark lánveitingarinnar 100,000 kr. hjá flutningsmanni till. En það mætti skilja svo, sem þetta þing ætlaði að veita 100,000 kr. til viðbótar hinum áður veittu 45,000 kr., sem auðvitað gat ekki verið meiningin. Þess vegna áleit fjárveitinganefndin rjett að breyta orðalaginu á þann veg, að veita 45,000 kr. til viðbótar hinni áður veittu 45,000 kr. upphæð. Ennfremur áleit fjárveitinganefndin rjett að breyta orðalaginu á þá leið, að heimila landsstjórninni að lána fje, í stað þess að skora á hana að lána fje; í því orðalagi er meira samræmi við venju liðinna tíma.

Hygg jeg svo að lokum, að hv. flm. þingsál.till. (M. T.) hafi ekki á móti brtt. fjárveitinganefndarinnar. Hefi jeg svo ekki öðru við að bæta en því, að jeg tel, að brtt. nefndarinnar megi öllu fremur reiknast til bóta en hitt.