18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

64. mál, tollalög

Flm. (Einar Árnason); Jeg ætla ekki að deila um það, hvort hækkunin sje ofmikil í einstökum atriðum, nje heldur svara hæstv. fjármálaráðherra (B. K.), því að það hefir hv. 1. þm. Árn. (S. S.) gert. En háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) taldi vafasamt, að hækkun á tolli kæmi æfinlega til gagns landssjóði, og sagði, að menn reyndu þá að hliðra sjer hjá kaupum. Jeg held, að undanfarin reynsla hafi sýnt, að þessi aths. á ekki við rök að styðjast. Dæmin eru deginum ljósari um það, að verslun tollskyldra vara hefir aukist hjer á landi með ári hverju og tolltekjur landssjóðs ætíð farið langt fram úr því, sem nokkur hefir vænst. Er jeg þess fullviss, að eins verður hjer eftir, ef aðrar óviðráðanlegar tálmanir hindra ekki. En það er langt frá því, að vjer flutningsmenn viljum halda rígfast í hvert atriði. Vjer leggjum málið á vald væntanlegrar nefndar.

Jeg get vel fallist á þá aths. hv. þm. S.-Þ. (P. J.), að rjett gæti verið að hafa þessi ákvæði að eins til bráðabirgða; það vakti fyrir mjer við samning frv., en jeg fjell frá því aftur, af vissum ástæðum.