18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

64. mál, tollalög

Bjarni Jónsson:

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) talaði um eigin reynslu sína um vindlingareykingar. Hjelt jeg þó ekki, að hann hefði eigin sök að sækja á hendur þeim. En, að gamninu sleptu, vil jeg benda á, að það er sitthvað að hefta nautn skaðlegrar vöru og að útvega landssjóði tekjur. Ef ætti að nota toll til að minka nautn, yrði hann að vera mjög hár, t. d. 25 kr. á kg. af vindlingum. Við það mundi heilsufar batna, en landssjóður ekki auðgast.

En er menn vilja auka tekjur landssjóðs með tollum, eru takmörk fyrir því, sem fara má. Svo langt mætti þá ganga, að tollurinn yrði til heilsubóta landsmönnum, en landssjóði engin tekjulind. Jeg hygg betra að miða tekjutoll við það, hversu langt menn ganga að kaupa vöruna. T. d. vita þeir, er vindla reykja, að varla eru fáanlegir góðir vindlar nú, og gæti því sú vara orðið afslepp til tekjuauka fyrir landssjóð. Væri því vegur fyrir nefndina að finna tryggari tollstofna, ef á að bjarga landssjóði.

Jeg hygg nú, að þetta megi nægja, en sje fulla ástæðu fyrir háttv. nefnd, og þá, er fluttu frv., að gæta þess, að þetta verði eigi pappírsgagn eitt. Þörf landssjóðs fyllist eigi af frumvörpum.