01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

64. mál, tollalög

Hákon Kristófersson:

Það er alveg rjett hjá háttv. frsm. (Þór. J.), að jeg gat ekki verið samdóma nefndinni að því leyti, er snerti aukinn toll af öli og tóbaki, því að jeg verð að líta á það hvorttveggja sem engu minni nauðsynjavöru en margt annað, er háttv. nefnd leggur ekki til að hækka toll á. Jeg býst við, að háttvirt deild verði mjer samdóma um það, að margir neytendur tóbaks geta engu fremur verið án þess en ýmsra annara vörutegunda, sem nauðsynjavörur eru taldar.

Þessa vöru, tóbakið, nota jafnt fátækir sem ríkir, og sje jeg því ekki, að jafnvel tekjuþörf landssjóðs geti rjettlætt það að leggja slíkan skatt á, sem hjer er um að ræða. Hjer í frv. er lagt til að auka toll á þeim vörutegundum, sem mest álög þoli og sjeu að líkindum óþarfar.

Þótt ef til vill megi segja um ölið, að það sje ekki bein nauðsynjavara, þá verð jeg að halda því fram, að svo framarlega sem það er rjett, sem jeg held fram, að það sje allmikið notað í kaupstöðum og geti þar í mörgum tilfellum komið í stað mjólkur til drykkjar, þá sje tæplega rjett að hækka toll á því, enda vafasamt, að nokkur innflutningur á því ætti sjer stað ef tollurinn væri hækkaður, og af því gæti þá leitt tekjumissir fyrir landssjóð, en ekki tekjuauka.

Jeg get því ekki átt samleið við hv. nefnd, að því er þessar tvær tegundir snertir.

Að því er snertir vindlinga, býst jeg við, að jeg verði nefndinni sammála, og sama er að segja um brjóstsykur og konfekt, þótt jeg búist við, að það leiði til þess, að hvorki brjóstsykur nje konfekt verði þá flutt inn í landið, og verður þá þessi tollur sem nokkurskonar verndartollur.