03.09.1917
Efri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg hefi ekki mörgu að svara. Það náði ekki margt til mín af því, sem háttv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði. Jeg vil að eins benda honum á, að hann hefir ekki tekið eftir því, sem jeg svaraði fyrirspurn hans um, hvað hefði verið gert til þess að útvega nauðsynjavörur fyrir sjávarútveginn. Jeg mintist á salt og olíu og gat þess, að gott útlit væri fyrir, að takast mætti að birgja landið að þeim vörum fyrir langan tíma. En eins og jeg sagði áður er ekki hægt að fullyrða neitt um það fyr en skipin, sem vörurnar flytja, eru komin inn á höfnina.

Annars vil jeg benda á það, að það ætti vel við og gæti orðið til mikils stuðnings fyrir stjórnina, ef sjávarútvegsmenn og lögreglustjórar kæmu sjer saman um að senda ákveðnar pantanir til stjórnarinnar. Þá mundi síður hætta á, að stjórninni sæist yfir, hve nauðsynlegt væri að fá mikið af vörunum, og síður hætt við því, að hrúgað væri saman miklum birgðum, t. d. af kolum, án þess að hún vissi, hvort skipin hjeldu áfram að ganga eða ekki.

Jeg býst við, að stjórnin mundi gera sitt til að fullnægja slíkum pöntunum, og ef hún beitir öllum kröftum sínum, þá ætti hún ekki að teljast ásökunarverð. Hitt sýnist nokkuð óeðlilegt, að stjórnin, ótilkvödd og stuðningslaust, eigi að geta sjer til um allar hugsanlegar þarfir og vera við því búin að fullnægja þeim út í ystu æsar, á hvaða tíma sem er, fyrirvaralaust, og án þess að vita, hvaða aðdráttaaðstöðu verslunarstjett landsins hefir. Slíkt væri eigi unt, nema með því móti, að landsstjórnin tæki að sjer algerlega einkasölu á helstu nauðsynjavörum. Til slíks kann að draga, ef vandræðin með vöruleyfi til innflutnings aukast stórkostlega. En enn sem komið er hefir ekki verið ástæða til þess, heldur hafa aðdrættir stjórnarinnar einkum miðað að því að útvega varaforða og fylla upp í þau skörð, sem orðið hafa hjá verslunarstjettinni, af eðlilegum ástæðum.

Af þessu sjest það, meðal annars, hversu fáránleg fjarstæða það er, sem sumir virðast halda fram, að landsverslunin hafi haft þann tilgang að vinna á móti verslunarstjettinni á þessum vandræðatímum, þar sem hún hefir kostað kapps um að vinna með henni að því hlutverki, sem stjettin hafði á hendur tekist, en var nú ekki fær um að fullnægja, á þessum breyttu og erfiðu dögum.

Hingað til hefir mest áhersla verið lögð á að draga vörur að landinu til brýnustu nauðsynja, en nú er vonandi, að skipakostur reynist svo góður, að hugsa megi frekar fyrir vörum þeim, sem nauðsynlegar eru til atvinnurekstrar, svo sem sjávarútvegs o. fl.

Jeg skýrði ekki frá því áðan, hvernig stjórnin hugsaði sjer að koma vörunum út um land, en von hefi jeg um það, að nú rýmki svo um, að hægt verði að beita fleiri skipum til þess, ef skip þau, sem nú eru í Englandi, komast hingað slysalaust.