12.09.1917
Sameinað þing: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

64. mál, tollalög

Frsm. í Nd. (Þórarinn Jónsson):

Fjárhagsnefnd Nd. hefir leyft sjer að bera fram brtt. við frv. þetta. Frv. hefir orðið fyrir því óhappi að hrekjast á milli deildanna, án þess að samkomulag hafi orðið á milli þeirra. Ágreiningnum veldur hækkun sú á tóbakstollinum, sem ákveðin var í upphafi í frv., en háttv. Ed. hefir ekki getað fallist á þá hækkun. Brtt. á þgskj. 859 fer nú fram á, að þetta ákvæði verði aftur sett inn í frv. Fjárhagsnefnd Nd. hefir litið svo á, að ástæðulaust hafi verið að fella þennan lið niður. Fyrst og fremst er hjer um æði mikinn toll að ræða, þar sem samkvæmt innflutningi á tóbaki árið 1916 má búast við því, að hann nemi um 100,000 kr. Nú má segja, að verði hækkunin á tollinum til þess, að menn spöruðu tóbak að mun, þá myndi það rýra tollinn. En fjárhagsnefnd Nd. gat ekki sjeð, að svo myndi verða. Og eftir tóbaksnautn manna yfirleitt í landinu gat nefndin ekki sjeð, að hækkunin væri svo mikil, að hún munaði jafnvel fátæklingana nokkru. Vill hún því breyta frv. í það horf, sem það var upphaflega í, og setja þetta ákvæði inn aftur. Það hefir einnig verið viðurkent af báðum deildum, að tóbak væri mjög góður tollstofn.

Skal jeg svo ekki orðlengja um málið að sinni, fyr en jeg hefi heyrt ástæður háttv. Ed. Getur þá verið, að jeg finni ástæðu til að ræða nánar um þetta atriði.