12.09.1917
Sameinað þing: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

64. mál, tollalög

Guðjón Guðlaugsson:

Háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) sagði, að skattur þessi væri svo lítill, að hans gætti ekki, eitthvað 4 kr. á mann. En hugsanlegt er, að hann yrði hærri hjá sumum, t. d. 5 kr., og setjum nú svo, að 4—5 sjeu á heimili, sem neyta tóbaks. Skatturinn er þá orðinn 20 kr., og ekki er það óhugsandi, að hann lendi allur á einum manni.

Þess eru mörg dæmi, að hjón brúki bæði neftóbak; svo getur verið gamalmenni, sem þau eiga fyrir að sjá, sem líka brúkar tóbak; þar að auki niðursetningur, og lendir þá allur skatturinn á húsbóndanum, því að ekki þekki jeg þær sveitarstjórnir, sem taka tillit til þess, hvort ómagar neyta tóbaks eða ekki. Flestar munu þær láta nægja að sjá um, að ómagarnir fái nóg til fæðis og klæða, en láta húsbóndann sjá þeim fyrir tóbaki.

Fyrir marga menn geta nú 20 kr. verið talsverð upphæð, t. d. fyrir þá, sem liggja við sveit, en eru ekki komnir á hana. Þá getur það komið sjer illa í bili að vanta, þótt ekki sje nema 20 kr., t. d. fyrir mann, sem á veika konu, og getur ekki fengið meðul nema borga þau strax; þá gæti hann, ef á alt er litið, munað mikið um þótt ekki væri nema 4—5 kr.

Jeg hefi heyrt hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) gera allra manna mest úr verðhækkunartollinum; hann gerði mikið úr því, að bændur, sem selja 1 tunnu af kjöti á 120 krónur, ættu að greiða af því 1 kr. skatt til landssjóðs, en honum þykir það ekki hart að leggja á fátækan mann, sem notar 9—12 pund af tóbaki á ári, 5-10 kr. skattauka. Jeg held, að gjaldþol þessara manna sje þó ólíkt.

Jeg sje ekki, að það sje rjett, að háttv. Ed. hafi drepið skattafrumvörp frekar en háttv. Nd., og háttv. Nd. drap þó frv. um aukna löggæslu, það er tollgæslu, frá Ed., og það var spor í rjetta átt.

Jeg er ekki að syngja neinn lofsöng um tóbakið, eins og hæstv. fjármálaráðh. (S. H.) sagði, enda efa jeg ekki, að það sje óþörf nautn, en það eru margir, sem hafa vanið sig á hana og geta trauðla verið án hennar, og hækkun á þessu lendir meir á þeim fátæku en þeim ríkari. Það kom fram í háttv. Ed. tillaga um að hækka tollinn á vindlunum. Jeg skal játa, að sú hækkun hefði mest lent á efnamönnum og yngra fólki. Þessi tollur var feldur í háttv. Ed., og var jeg með því, og stafaði það af því, að mjer finst tollurinn nógu hár eins og hjer er gert ráð fyrir. En háttv. Nd. hefir ekki tekið þessa tillögu upp. Er það vegna þess, að hún vill heldur hlífa efnamönnunum?

Viðvíkjandi bitternum vil jeg geta þess, að hann var leyfður á þingi 1907, og það var með rangindum, að hann var bannaður, og að segja, að hann sje »humbug« eitt, er rangt. Jeg hygg, að sjúklingarnir hljóti að finna best sjálfir, hvaða meðul þeim koma að haldi, og það er nú svo, að um mörg meðul, er læknarnir gefa, má segja, að þau sjeu gagnslaust »humbug«. Þetta kemur oft til af því, að þeir þekkja ekki sjúkdóminn, og vita því ekki, hvaða meðul eiga við, en sjúklingurinn verður var við áhrif lyfsins á sig, og má því best segja um það; sannast þar, að sá veit gerst, sem reynir.

Að endingu vil jeg leyfa mjer að óska þess, að nafnakall verði haft um brtt.