07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

71. mál, stefnubirtingar

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Framsagan verður örstutt. Þetta mál hefir ekki valdið neinum ágreiningi í allsherjarnefndinni. Hún hefir orðið sammála um það, að frv. eigi fram að ganga. Með frv. þessu eru gefin skýrari og fyllri ákvæði en nú eru til um það, hvernig stefnu skuli birta, og auk þess er nokkrum nýjum ákvæðum bætt við, sem vafalaust eru til bóta. Síðari hluti frv. er um það að ljetta undir með þeim mönnum, sem dæmdir hafa verið, án þess að þeir hafi átt kost á að bera hönd yfir höfuð sjer. Er það til mikilla bóta, því að svo getur staðið á, að stefndur geti ekki mætt á rjettum tíma, og tapar máli fyrir þá sök.

Jeg skal geta þess, — til þess að menn skuli ekki halda, að jeg sje hjer að hrósa mínum eigin verkum, — að þótt jeg sje meðflutningsmaður að frv. þessu, þá á jeg engan þátt í samningu þess. Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir samið það, víst að öllu leyti einn, og frv. á það skilið, að lofsorði sje á það lokið.

Brtt. nefndarinnar eru fáar og óverulegar, og óþarfi að fara mörgum orðum um þær.

Fyrsta brtt. er um það, að stefnuvottar megi vera fleiri en 2. Er það gert með það fyrir augum, að sumir hreppar eru svo stórir, að stefnubirting yrði óþarflega dýr ef stefnuvottar væru ekki

nema 2. Betra, að þeir sjeu fleiri og dreifðir um hreppinn.

Önnur brtt, við 4. gr., um að stefnuvottar þurfi ekki að undirskrifa drengskaparheitið um leið og þeir eru skipaðir, heldur áður en þeir taka til starfa, er til bóta, því að svo getur verið, að stefnuvottar sjeu eigi við þegar þeir eru skipaðir, en það er venjulega gert á manntalsþingi.

Fjórða brtt. er um það, að ákvæði 11. gr. frv. nái einnig til mála, úrskurðaðra af sáttanefnd, og er sú breyting sjálfsögð.

Hinar brtt. nefndarinnar eru að eins orðabreytingar, sem jeg finn enga ástæðu til að nefna sjerstaklega.