26.07.1917
Neðri deild: 18. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

72. mál, hagnýt sálarfræði

Flm. (Bjarni Jónsson):

Það kemur oft fyrir um mig og aðra, að þeir segja, að þetta eða hitt sje ekki viturlega gert af Alþingi, en þótt svo sje, að ekki sje alt sem viturlegast gert af þessari samkundu, þá ætla jeg þó ekki að geta þess til, að Alþingi hafi tekið upp þann sið að veita Guðm. Finnbogasyni styrk án þess að hafa ætlað sjer að halda honum áfram. Slíkt starf sem það, er hann hefir með höndum, verður ekki int af hendi á einu ári. Það er fullkomið æfistarf að rannsaka, á hvern hátt sálarkraftar mannanna verði hagnýttir sem best.

En þar sem jeg nú byggi á þessu, þá þótti mjer sýnt, að Alþingi bæri að sýna, að það kynni dálítið til vinnubragða, án þess að ganga í skóla hjá Guðmundi Finnbogasyni. Jeg vildi sýna, að Alþ. kynni að hagnýta sjer þá krafta, sem það hefir tekið í þjónustu landsins, hagnýta ekki brot þeirra krafta, heldur þá alla, og því er þetta frv. fram komið.

Rannsókn á þessum sviðum er torveld á vetrum, og verður því mestur hluti þess árstíma að ganga til þess að vinna úr þeim rannsóknum, sem fram hafa farið að sumrinu, og halda fyrirlestra um þær rannsóknir. En til þessa þarf ekki allan veturinn. Það væri því hagsýni af þinginu að skylda Guðm.

Finnbogason til þess að halda fyrirlestra um sálfræðileg efni við Háskólann. Sömuleiðis ætti hann að fást við kenslu í uppeldisfræði, því að það kemur líka inn á hans svið í vinnuvísindum.

Það vita allir, að Guðm. Finnbogason er maður mjög vel mentaður. Hann er nú yfir 40 ára gamall og hefir gengið í bestu skóla í Danmörku, Frakklandi og Þýskalandi. Það er því auðsætt, að hann hlýtur að hafa mikið og margt að kenna mönnum, og væri því mikil hagsýni af þinginu að nota krafta hans út í æsar. Það er líka miklu hægra að skuldbinda hann til að kenna við Háskólann, ef hann þarf ekki sífelt að kvíða því, að þessi styrkur verði af honum tekinn. Jeg þarf ekki að taka það fram, að landinu er þetta enginn fjárskaði, því að jeg geng að því vísu, að styrkurinn mundi halda áfram framvegis, hvort sem er. En á hitt ber að líta, að maðurinn er miklu tryggari með því, að honum sje strax veitt fast embætti, heldur en eiga þetta ef til vill undir högg að sækja, og því á hann miklu betra með að nota kraftana. Það er líka nokkuð undarlegt að ætlast til þess, að bestu menn þjóðarinnar geti ekki lifað áhyggjulitlu lífi, til þess að þeir njóti sín sem best. Alþ. þarf að veita þeim tryggingu fyrir því, að þeir geti það, og þessa tryggingu vil jeg nú láta veita Guðm. Finnbogasyni.

Það er í sparnaðarskyni, sem jeg hefi viljað binda þetta embætti við nafn, því að ef Guðm. Finnbogason deyr, sem hann eflaust gerir einhvern tíma, þótt verk hans lifi, þá stæði ella kennaraembættið eftir, og get jeg hugsað, að sumum þyki óþarfi að ákveða það nú þegar.

Jeg skal svo ekki segja meira um þetta að sinni, en vona, að málinu verði, að umr. lokinni, vísað til mentamálanefndar.