07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

72. mál, hagnýt sálarfræði

Jörundur Brynjólfsson:

Eins og háttv. deild er kunnugt var máli þessu vísað til mentamálanefndar, og frá henni er komið álit. Við tveir af nefndarmönnunum höfum skrifað undir þetta nefndarálit með fyrirvara. Í raun og veru eru það að eins niðurlagsorð álitsins, sem við gátum ekki skrifað undir. Við tókum það strax fram á móti þessari embættisstofnun, að hún væri ekki nauðsynleg og yrði jafnvel að minni notum en starf mannsins á öðrum grundvelli. Þar sem maðurinn á að starfa í sjerstökum tilgangi, þá hefðum við talið hyggilegra, að embættið væri stofnað með tilliti til starfsins, sem á að vinna, ef það er stofnað á annað borð, en síður, að það sje bundið við Háskólann. Samt var okkur þetta ekki svo mikið kappsmál, að við vildum fara að kljúfa nefndina á því atriði, fyrst að við áttum samleið með henni að öðru leyti. Við teljum sjálfsagt, að maðurinn fái sömu launakjör og hann hefir nú, eða jafnvel ríflegri, eftir því sem hann þarf með.

Jeg og meðnefndarmaður minn (St. St.) lítum svo á, að ekki eigi að stofna embætti við Háskólann handa dr. Guðmundi Finnbogasyni, ef hann á að starfa að vísindalegri rannsókn á vinnubrögðum, eins og gengið hefir verið út frá. En þótt svo væri álitið, að svo skyldi vera, þá virðist okkur heldur fljótt að fara fram á það nú. Það er ekki enn þá kominn svo mikill sýnilegur árangur af starfinu, að ástæða sje til að vinda svo bráðan bug að embættisstofnuninni. Ekki svo að skilja, að jeg telji árangurinn minni en von er á. Það má heita mikið, sem eftir manninn liggur, eftir svo stuttan tíma. En þá er líka hægur hjá að bíða með embættisstofnunina eftir meiri árangri. Jeg geri ekki lítið úr þeim endurbótum á vinnubrögðum, sem koma má á með þessum rannsóknum. Jeg er ekki í nokkrum vafa um það, að maður með góðum hæfileikum geti miklu breytt til bóta í þessu efni. Og þótt jeg viti, að dr. Guðmundur Finnbogason sje ókunnugur ýmsri vinnu, þá veit jeg líka, að hann getur á stuttum tíma sett sig svo inn í flesta vinnu, að rannsóknir hans geta borið árangur. En jeg vildi bíða með embættisstofnun, þangað til meira sjest frá honum í þessu efni en enn er komið. Fjárhagsatriði er þetta ekkert, eins og háttv. flutnm. (B. J.) tók fram, og þar sem ekki bar meira á milli meiri og minni hluta nefndarinnar en þetta, þá þótti okkur sjálfsagt að kljúfa ekki nefndina, en gera grein fyrir aðstöðu okkar til málsins í umræðunum. Við viljum veita styrkinn áfram, jafnvel hækka hann, en sjáum ekki ástæðu til að stofna sjerstakt embætti.

Jeg býst við, að háttv. frsm. (B. J.) svari mjer einhverju. Jeg sje, að hann er að biðja um orðið. En jeg tel mig standa við það, sem jeg sagði í nefndinni. Jeg sagði þar, að jeg væri mótfalinn nýrri embættisstofnun en gerði það ekki að svo miklu kappsmáli, að jeg vildi kljúfa nefndina.