08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Framsm. fjárveitinganefndar (Eggert Pálsson):

Það hefir leikið orð á því, að þessi háttv. deild eyddi ekki tímanum í ónytjumælgi, og jeg vildi ógjarnan verða til þess að svifta hana þeim heiðri.

En það liggur í hlutarins eðli, að ekki verður hjá því komist að verja nokkrum tíma til umræðu, þegar um svo mikilsvert mál er að ræða sem fjárlögin.

Eins og tekið er fram í nál. hefir fjárveitinganefnd þessarar háttv. deildar farist svo í gerðum sínum, að heita má, að hækkanir og lækkanir, sem hún hefir gert, standist á.

Eftir því, sem mjer telst til, hefir lækkunin orðið 59200 kr., en hækkunin 57000 kr. Hún hefir því lækkað útgjöldin um 2200 kr. Enda er þetta af sumum kallað einungis nart hjá nefndinni.

En eins og tekið er fram í nál. þá sá nefndin sjer ekki fært, þrátt fyrir góðan vilja, að strika út nein stórvægileg útgjöld, sökum þess, að þar var einungis um að ræða útgjöld, sem þýðingarmikil eru til atvinnubóta og annara nauðsynja. Þess ber líka að gæta, að flestir stærstu liðirnir eru lögákveðnir og verða því ekki lækkaðir.

Einu stórliðirnir, sem hægt væri að breyta, eru útgjöldin til samgöngubóta og verklegra fyrirtækja.

Um vegagerð t. d. er nú það að segja, að fjárveitinganefndin er á sömu skoðun og sama nefnd í háttv. Nd., að þrátt fyrir ilt útlit þá megi ekki lækka þau útgjöld, þar sem verkið er til stórnytja fyrir landsmenn, auk þess sem það veitir fjölda manns atvinnu. Það mundi því enginn beinn hagnaður af því leiða að lækka útgjöldin til samgöngubóta. Verk þau, sem áætluð eru útgjöld til í 13. gr. frv., og helst væri hugsanlegt að lækkuð yrði fjárveiting til, eru auðvitað þau helst, sem útlent efni þarf til. En nefndin sá ekki ástæðu til að strika út neina af þeim liðum, með tilliti til þess, að með athugasemdum, er þeim fylgja, er stjórninni heimilað að leggja ekki fjeð fram, meðan framkvæmdirnar eru einhverjum annmörkum bundnar.

Ef tekin eru saman þessi útgjöld, þá telst mjer til, að til brúargerða skuli verja 51900 kr. f. á. og 76200 kr. síðara árið, samtals 128100 kr. Til símalagninga 25500 kr. og 45000 kr., samtals 70500 kr. Til vita 15000 og 25500 kr., samtals 40500 kr.

Útgjöld þessi verða til samans á fjárhagstímabilinu 239100 kr. En verk þau, sem hafa útgjöld þessi í för með sjer, er ekki ákveðið að framkvæma skuli á fjárhagstímabilinu, ef ekki rætist úr örðugleikunum.

Ef nú verður samþykt sama athugasemd við fjárveitinguna til loftskeytastöðvar í Flatey og listasafnsbyggingarinnar, þá bætast þar við 70000 kr., og eru þá alls 300 þús kr. fullar, sem veittar eru með þessum fyrirvara.

Nefndin sá því ekki ástæðu til að lækka þessa liði eða fella þá. Reyndar eru þeir flestir svo vaxnir, að ekki er hægt að færa þá niður, heldur verður að strika þá út, ef hreyft er við þeim á annað borð, því að kostnaðaráætlanir við framkvæmd þeirra eru bygðar á útreikningum, sem forstjórar þeirra hafa gert.

Þá sný jeg mjer að brtt. þeim, sem fjárveitinganefndin hefir komið fram með. Eins og gefur að skilja eru þær allmisjafnar að þýðingu og mikilvægi. Í nál. er vikið að þeim flestum, sem mikilsvarðandi eru, og getur það sparað mjer orð um þær.

Hins vegar eru nokkrar, sem ekki þótti taka að fara orðum um í nál., en viðkunnanlegra mun þykja, að minst sje á í framsögunni.

Jeg sje ekki ástæðu til að rekja það neitt nákvæmlega eða skýra betur það, sem fram er tekið í nefndarálitinu, nema þá, ef vera kynni, í stöku tilfelli.

1. brtt. nefndarinnar, við 9. gr., þarf jeg ekki að gera frekari grein fyrir en gert er í nál.

Í 2. brtt., við 10. gr., felst stórvægilegasta lækkunin, sem nefndin hefir lagt til að yrði í fjárlögunum. Það er niðurfærslan á alþingiskostnaðinum. Háttv. Nd. samþykti, eftir tillögu fjárveitinganefndar þar, að alþingiskostnaðurinn skyldi áætlaður helmingi hærri en stjórnin hafði gert. Þetta fanst fjárveitinganefnd Ed. óþarft. Vitanlega má gera ráð fyrir, að alþingiskostnaðurinn fari vaxandi; hann hefir farið sívaxandi að undanförnu, og mun áreiðanlega vaxa framvegis. En nefndinni fanst með öllu óþarft að hækka hann svona mikið, sjerstaklega þegar þess væri gætt, að aukaþingskostnað, þótt til kæmi, bæri ekki að áætla eða taka upp í fjárlög, enda er það í samræmi við nýlega gefna yfirlýsingu frá hálfu forsetanna., Þessi kostnaður nær því að eins til reglulegs Alþingis, og fanst nefndinni því nægja að áætla hann 50% hærri en stjórnin hafði gert.

Í 11. gr. B. 5. leggur nefndin til að gerð sje lítilfjörleg hækkun, sem þó gæti haft verulega þýðingu, ef eigi væri sint. Það er sem sje hækkun á fjárveitingu til skipamælinga. Þessar mælingar eru mjög vandasamt verk, og hefir ákveðinn maður, Páll skólastjóri Halldórsson, haft þetta á hendi. En hann hefir látið í ljós, að hann mundi láta af þessum starfa, ef þóknun sú, sem fyrir hann hefir verið greidd, yrði ekki eitthvað hækkuð. En ef svo færi, að hann ljeti af þessum starfa, mundi vandfenginn maður í hans stað. Þess vegna hefir nefndin lagt til, að þóknunin yrði hækkuð um 200 kr. á ári.

Um 4. brtt. nefndarinnar, við 11. gr. B. 8, þarf jeg ekki að fjölyrða, en læt mjer nægja að vísa þar til nál.

Þá hefir nefndin gert þá breytingu, við 11. gr. B. 10., að athugasemdin við þennan lið falli burt. Meiri hluti nefndarinnar var sammála um þetta, enda má segja, að það sje í samræmi við skoðanir þær, sem nefndin ljet í ljós í fjáraukalögunum, um aðhlynningu sjúkraskýla.

Þá er brtt. við 12. gr. 12., sem leggur til, að Jóni lækni Kristjánssyni skuli veittur dýrtíðarstyrkur að eins fyrra árið. Þessi styrkveiting er þannig rökstudd af fjárveitinganefnd Nd., að hún sje veitt vegna dýrtíðarinnar. En þar með er gefið í skyn, að styrkurinn verði ekki veittur eftir að dýrtíðinni ljettir af. Þess vegna hefir fjárveitinganefnd Ed. lagt til, að styrkur þessi skuli að eins veittur fyrra árið, í þeirri von, að dýrtíðinni verði þá ljett af. Þessi till. er líka í fullu samræmi við þá tillögu nefndarinnar, að Landakotssspítali skuli að eins njóta styrks fyrra árið.

Við 13. lið þessarar greinar, 12.gr , hefir nefndin ekki gert neina breytingu.

Við 14. lið sömu gr. hefir nefndin lagt til að fella niður 1000 kr. síðara árið til undirbúnings landsspítalabyggingarinnar. Nefndinni var ekki ljóst, hvaða tilgangur gæti verið í því að veita svona litla fjárhæð ár eftir ár. Hún hyggur, að hjer geti ekki verið um annan undirbúning að ræða en þann, að sjá út hentugan stað undir spítalann, og ef til vill að gera einhverjar frumteikningar. En nefndin gat ekki látið sjer detta í hug, að fje yrði veitt til spítalabyggingarinnar í næstu fjárlögum, því að vitanlega mundi hún kosta stórfje, og verður hún ekki framkvæmd, nema með miklum undirbúningi. Vjer ættum að láta oss vítin að varnaði verða, og ráðast ekki í þetta verk fyr en vjer vitum fótum vorum forráð. En þó að sjóðsöfnunin sje virðingarverð viðleitni, þá er henni hins vægar enn svo skamt komið, að það fje, sem safnast hefir, er ekki meira en krækiber í ámu, í samanburði við það, sem á vantar. En nefndin vonar, að söfnuninni verði haldið áfram, og því meira sem safnað er, því fyr verður hægt að ráðast í að byggja spítalann.

Þá hefir nefndin gert þá breytingu við 16. lið 12. gr., að veittar verði 2000 kr. fyrra árið til ljóslækningatækja á Vífilsstöðum. Læknirinn þar hefir gert skýra grein fyrir því, að þessi lækningaraðferð hafi gefist framúrskarandi vel, og kveður meira að segja svo að orði, að ekkert vit sje í að sinna þessu máli ekki frekar en gert hefir verið. Læknirinn fer og fram á, að gerð sje sú breyting á herbergjaskipun heilsuhælisins, að komið sje upp sjerstakri barnadeild við hælið, og að reist sje sjerstakt íbúðarhús handa lækninum. Mun öllum hv. deildarmönnum skiljast, að margt mælir með þessu. Eftir áætlun, sem Rögnvaldur heitinn Ólafsson gerði, mundi þetta kosta um 20000 kr. En nefndin sá sjer ekki fært að leggja það til, að húsið yrði bygt að þessu sinni, heldur lætur hún sjer nægja að hafa það með öðrum störfum, sem kynni að verða ráðist í að undirbúa á næsta fjárhagstímabili.

Þá hefir nefndin gert þá breytingu við 17. lið 12. greinar, að styrkurinn til sjúkraskýlanna verði hækkaður um 2000 kr. frá því, sem Nd. ákvað hann. Er óþarft að orðlengja frekar um þetta atriði, því að um það er ekki annað að segja en nefndin hefir þegar gert í nál. sínu fyrir fjáraukalagafrumvarpinu fyrir árin 1916 og 1917.

Þá kemur nýr liður, þar sem ákveðinn er styrkur til Landakotsspítalans. Fyrir þessari styrkveitingu er gerð grein í nál. Landlæknir flutti nefndinni og mælti með erindi frá forstöðukonum Landakotsspítalans, og sýndi fram á, að nauðsyn bæri til að rjetta spítalanum hjálparhönd, einkum vegna hins afarháa kolaverðs. Þetta er stofnun, sem ekki er hægt án að vera, því að ef svo slysalega skyldi til takast, að nauður ræki til að loka spítalanum, stæði ógn og dauði fyrir dyrum.

Við þennan lið (17. lið) er lagt til að gerðar sjeu enn fremur smávægilegar breytingar. Skal jeg taka það fram til athugunar, að stafliður b verður vitanlega c, ef styrkurinn til Landakotsspítalans verður samþyktur. Einnig hefir nefndin lagt það til, að á eftir orðunum »og að sýslufjelag það« komi: eða hreppsfjelag. Orsökin til þessarar viðbótar er sú, að Siglfirðingar hafa óskað hennar, vegna þess að Siglufjarðarhreppur hefir í hyggju að reisa sjúkrahús, sem hann ætlar að reka á eigin kostnað, og á ekki að koma neitt við sjálfri Eyjafjarðarsýslu. Nefndinni þótti sjálfsagt að verða við jafnmeinlausri bón.

Þá hefir nefndin hækkað utanfararstyrk hjeraðslækna um 500 kr. Orsökin til þessarar hækkunar var sú, að nefndin hefir viljað leyfa, að þeim sjeu ætlaðar 200 kr. fyrir hverja mánaðardvöl erlendis, í stað 150 kr.

Í 13. gr. A. 3. d. hefir nefndin leiðrjett prentvillu. Í fjárlagafrumvarpinu stendur, að veittar skuli 6500 kr. til húsaleigu á stærri póstafgreiðslum, utan Reykjavíkur. En nefndin þykist vita, að þetta sje prentvilla, er var þeim mun meinlegri, sem hún sýnilega hefir haft áhrif á fjárhæðina utan striks.

Í 13. gr. B. I. 1. b. hefir nefndin lagt til, að skrifstofukostnaður vegamálastjóra skuli hækkaður úr 1500 kr. upp í 2000 kr. Vegamálastjórinn hefir farið fram á þessa hækkun, í því skyni að geta fengið sjer aðstoð við ýms vandaminni ritstörf, svo að hvorki hann nje aðstoðarverkfræðingurinn þyrftu að sitja í slíku. Og nefndinni fanst hyggilegast, að til þessa starfa væri fenginn einhver ritfær maður ódýrari en sjálfur verkfræðingur landsins.

Þá hefir nefndin gert breytingu undir staflið C í 13. gr., sem ekki er vikið að í nál. Vitanlega kemur þessi liður fjárlaganna ekki beinlínis þessari nefnd við, heldur snertir hann samgöngumálanefndina. En þessi athugasemd, sem vjer leggjum til að strikuð sje út, eru leifar frá því, er hugsað var til, að Eimskipafjelagið hjeldi uppi strandferðum og fjekk styrk til þess. Hygg jeg, að fjárveitinganefndinni verði fyrirgefinn þessi slettirekuskapur.

Þá er 13. gr. D. IV. 12. Þar er lagt til að hækka styrkinn til símstöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Orsökin til þessarar hækkunar er sú, eins og bent er á í nál., að við það að bera saman fje það, sem í núgildandi fjárlögum er veitt til ýmissa ritsímastöðva, við fjárhæðir þær, sem í fjárlagafrumvarpinu nú eru ætlaðar, kom það í ljós, að ritsímastöðin í Vestmannaeyjum var sú eina, sem ekkert var hækkað hjá. En nefndin áleit nauðsynlegt að taka hjer til greina dýrtíðina, sjerstaklega hið dýra eldsneyti, því að það mun ekki síður hafa hækkað í verði í Vestmannaeyjum en annarsstaðar, nema fremur sje. Vestmannaeyjar hafa ekki mó til þess að brenna, heldur að eins kol.

Þá kem jeg að lið E. I. a. Þar leggur nefndin til að hækka laun vitamálastjórans um 200 kr. á ári. Þessi maður hefir nú lengi verið í þjónustu landsins og hefir nú farið þess á leit, að laun sín verði hækkuð um þetta. Hann hefir látið í ljós, að sjer stæðu aðrar vel launaðar stöður til boða, og þó að hann kynni best við sig hjer á landi, þá gæti svo farið, að hann neyddist til að fara af landi burt, ef hann sæi, að þingið kynni ekki að meta störf sín að verðleikum. Það má segja, að þessi krafa sje eðlileg, með því að vegamálastjóri fær þegar 4000 kr. kaup, og er því von til, að hinum, sem setið hefir hjer lengi, finnist, að hann hafi rjett til, að tekinn sje til greina aldur sinn. Nefndin hefir og hækkað skrifstofukostnað hans úr 700 kr. upp í 1000 kr. Var það gert með hliðsjón af skrifstofukostnaði vegamálastjóra.

Þá kem jeg að 14. gr. Á það er ekki drepið í nál, að nefndin hefir hækkað styrkinn, sem ætlaður er til húsabóta á prestssetrinu Bergsstöðum. Þetta er sami styrkurinn sem farið var fram á hjer á þingi áður. Var þá farið fram á 1200 kr. En síðan hefir alt hækkað svo í verði, að nefndinni fanst, að ekki mundi veita af að hafa styrkinn 1500 kr. En á þessa styrkveitingu má ekki líta sem gjöf. Með henni eignast landið betri húsakynni á þessari jörð, sem það á. Því að vitanlega fylgir henni sú kvöð, að prestinum beri að skila húsunum í því standi, sem samsvarar þessum 1500 kr., að viðbættu andvirði og álagi hinna gömlu jarðarhúsa. Þess vegna er þetta ekki tapað fje, heldur á landið það í bættum húsakynnum á jörðinni.

Þá er 14. gr. B. I. a. Þar leggur nefndin til, að háskólalaunin hækki um 200 kr., og stafar þessi hækkun af því, að nefndin ætlast til, að Sigurður háskólakennari Sívertsen fái notið þeirra 400 kr. árlegu persónulegu launaviðbótar þetta fjárhagstímabil, er hann hefir haft að undanförnu. En nefndin ákvað ekkert um það, hvort þessi viðbót skyldi veitt um lengri tíma. En ástæðan til þess, að nefndin ákvað þessa hækkun nú, er sú, að prófessorinn neyddist til að sigla sjer til heilsubótar, og sú ferð hefir hlotið að kosta hann mikið á þessum erfiðu tímum.

Þá er 14. gr. B. VII. 3., þar sem nefndin leggur til, að 3000 kr. síðara árið til skólahalds á Eiðum falli burt. Það er auðsætt, að þessi styrkveiting á að falla niður síðara árið, með því að þingið hefir ákveðið, að landssjóður annist skólann, og verður þá veitt til hans framvegis samkvæmt lögum þeim, er um það efni hafa verið samþykt.

Í 14. gr. B. XIV. a. fer nefndin fram á 500 kr. hækkun til unglingaskóla. Hækkun þessi stafar af því, að nefndin ætlast til, að unglingaskólinn á Hvammstanga, sem eftir öllum upplýsingum verður að teljast góðs maklegur, fái notið sömu hlunninda sem t. d. unglingaskólinn á Núpi í Dýrafirði.

Þá hefir nefndin bundið styrkveitinguna til Flensborgarskólans því skilyrði, að skólanum sje veitt að minsta kosti 1000 kr. tillag úr bæjarsjóði Hafnarfjarðar og sýslusjóði Gullbringusýslu. Eina fjeð, sem skóli þessi styðst við, auk landssjóðsstyrksins, er eftirgjald af Hvaleyri, sem er að eins 135 kr. Annað hefir skólinn ekki, að fráskildum afnotum af húsum sínum. Nefndin áleit þess vegna skólanum fyrir bestu, að þessi brtt. yrði samþykt. Það yrði til þess að styrkja hann og efla í framtíðinni. Þessi breyting hefir að vísu í för með sjer aukin útgjöld fyrir viðkomandi hjeruð. En þá er þess að gæta, að þau njóta mest góðs af skólanum, eins og skólaskýrsla síðasta árs sýnir ljósast, þar sem flestir nemendurnir eru úr Hafnarfirði, en að eins nokkrir annarsstaðar frá.

Á þgskj. 854 hefir nefndin lagt til, að sú breyting yrði gerð við 15. gr. 1. b., að laun 1. bókavarðar Landsbókasafnsins skuli hækkuð um 200 kr. á ári. Nefndin viðurkennir, að hjer sje, ef til vill, farið ofskamt og að sanngjarnt væri að hækka launin meir. En nefndin taldi þó þessa hækkun betri en ekki neitt.

Við 15. gr. 1. f. hefir nefndin gert þá breytingu, að í stað 10,300 kr. til bókakaupa Landsbókasafnsins komi 11,300 kr. Ætlast nefndin til, að 1000 kr. sje árlega varið til þess að kaupa bækur og handrit Jónasar þinghúsvarðar Jónssonar. Landsbókasafninu hafa verið boðnar bækurnar til kaups fyrir 5000 kr., og ef samningar takast, væri hægt að kaupa safnið þannig á 5 árum. Fari svo, má segja, að það sje að nokkru leyti hagnaður fyrir landssjóð, því að ekkjan hefir lýst yfir því, að hún teldi bæði hagsmunum sínum og sóma borgið, ef landssjóður keypti safnið af henni, en ef þingið hins vegar vill ekki sinna þessu, þá er við búið, að það hefði talið sjer skylt að hlynna eitthvað að ekkju þessari í framtíðinni, eins og svo mörgum öðrum.

Þá er brtt., er snertir Þjóðmenjasafnið, b-liðinn, um að hækka þessa litlu upphæð um 250 kr., til þess að þessir menn, eða konur, sem aðstoðina veita, geti fengið einhverja þóknunarhækkun um klukkutímann. Það er svo lítil upphæð, að jeg sje ekki ástæðu til að fara fleirum orðum um það.

Þá er sú till. nefndarinnar, að Einari Gunnarssyni, bókaútgefanda, sjeu veittar 1500 kr. á ári til að ljúka við útgáfu safnsins »Lög Íslands, öll þau, er nú gilda.« Slíka útgáfu telur nefndin þarft verk, svo að menn geti haft öll lögin við hendina og þurfi ekki að vera neyddir til að moða í öllum þessum mörgu lögum okkar.

Þá leggur nefndin til, að gerð sje nokkur breyting á styrknum til skálda og listamanna. Það er bæði efnis- og »redaktions«-breyting. Það, sem er undir 37. lið, til Bjarna Jónssonar frá Vogi, til að þýða Goethes Faust, vill nefndin flytja þarna undir; engin breyting er gerð á liðnum sjálfum, heldur að eins lagt til, að hann standi þarna, í hópi skálda og listamanna.

Einum manni áleit nefndin sjer skylt að bæta inn þarna; lá það þá helst fyrir að gera það fyrra árið. Það er Gunnlaugur Blöndal. Uppi á Hlaðbúð hafa legið fyrir nokkrar teiknimyndir, gerðar af þessum manni. Jeg er enginn sjerlegur listþekkjari, en jeg hlaut að dást að, hve vel þær voru gerðar, þegar jeg bar þær saman við mennina, sem jeg þekti, enda er mjer kunnugt um, að auk þess, sem maður þessi er lærður af Stefáni Eiríkssyni, þá er hann af framúrskarandi listgefinni ætt; hann er allmikið í ætt við Benedikt Gröndal, og gefur það mjer, auk sýnishorna þeirra, sem fyrir liggja, von og traust á því, að hann sje listamannsefni. Nefndin leggur þess vegna eindregið til, að honum verði veittar 1200 kr. En af þessu leiðir það, að upphæðin til listamanna kemur til að verða talsvert hærri fyrra árið en hið síðara, þegar þessi maður kemur með og annar maður, er samþyktur var í Nd. Þá kemur til að standa samt. 15,200 kr. fyrra árið, en 12,000 síðara árið, og með tilliti til þess að jafna upp þann mun lagði nefndin til að hækka styrkinn síðara árið upp í 14,000 kr., enda sennilegt, að fram geti komið fleiri menn með listahæfileikum, er þörf væri á að styrkja eitthvað, eins síðara ár fjárhagstímabilsins eins og hið fyrra.

Þá lagði nefndin til að lækka 23. lið ofan í 3000 kr. hvort árið. Það er íslenska orðabókin. Hefir það verið svo að undanförnu, og þótti nefndinni engin ástæða til að ganga lengra. Vitanlega hefir það vakað fyrir háttv. Nd., að það yrðu tveir menn, er að henni störfuðu. Hverjir mennirnir eru skal jeg ekkert um segja, en það þótti nefndinni alls óvíst, þótt tveir menn væru við starfann, að þeir yrðu svo samhendir sem skyldi, og því ekki ástæða til að leggja svo mikið fje fram í þessu skyni. Óhætt væri að minsta kosti að bíða þess, að hinn nýi maður kæmist inn á einhverja braut í þessu máli, og að hann svo kæmi til að hafa orð að segja um þetta atriði.

Þá leggur nefndin til að breyta 27. liðnum, til dr. Helga Jónssonar. Þar vill nefndin láta haldast það, sem hann hefir fengið og staðið hefir áður í fjárlögunum, til mýrarannsókna og grasafræði, 1800 kr. hvort árið, eins og verið hefir, en svo til rannsókna á næringargildi þörunga 1200 kr. fyrra árið og það, sem athugasemdin segir, allan kostnað við efnagreining og ferðalög, eftir reikningi. En að setja það bæði árin virtist nefndinni óþarft, því að þetta er ekki starf, sem þarf að vinna ár eftir ár; ef rannsóknin er ekki búin fyrra árið, þá er lítil von, að henni verði lokið síðara árið.

Þá er lítil breyting við 40. liðinn — hennar er ekki getið í nefndarálitinu — til Helga H. Eiríkssonar, til verkfræðináms. Þessi maður var við Kaupmannahafnarháskóla, og naut þar styrks, sem venja er til, en hann afsalaði sjer öllu því og fór yfir til Englands, til að leggja stund á námaverkfræði og vjelfræði. Þar er dýrt að lifa; man jeg ekki í tölum, hvað skýrsla hans segir, að dvölin þar kosti, en jeg man svo mikið, að þessar 1500 kr. eru ekki nema styrkur til þess, sem hann þarf að leggja fram til dvalar sinnar þar. Þessi fræðigrein, sem hann leggur fyrir sig, virðist nefndinni einkar þörf, eftir því sem nú hagar til hjá oss.

Nefndin leggur til, að 51. liður falli burt, 1000 kr. hvort árið til Sigurðar Eiríkssonar, regluboða, og að hann verði tekinn inn í 18. gr. með 500 kr. styrk hvort árið. Nefndin verður að líta svo á, að honum sje það ekki síður hallkvæmt en landssjóði, því að þótt hann hefði fengið að standa þarna, þá væri óvíst, hvernig færi síðar, en ef hann væri fluttur í 18. gr., væri framtíð hans betur borgið, enda þótt upphæðin sje þar tiltekin helmingi lægri.

Í 54. lið hefir nefndin lagt til, að styrkurinn til Frímanns B. Arngrímssonar falli niður seinna árið.

Þá er jeg kominn að 16. gr. Fyrsta brtt., sem nefndin leggur til, er að Búnaðarfjelagi Íslands verði að eins veittar 2000 kr. síðara árið, í því skyni að kosta eina eða fleiri konur — mjer er ekki kunnugt um, hvort heldur er — til undirbúnings undir að stjórna húsmæðraskóla. Það er álit nefndarinnar, að nóg sje að veita styrkinn síðara árið. Nú er erfitt að sigla, bæði fyrir karla og konur, og svo er ekki sennilegt, að húsmæðraskólinn komist svo fljótt í framkvæmd, að ekki sje nægilegt að byrja á þessum undirbúningi seinna árið.

Þá er lítilfjörleg athugasemd við 3. liðinn, sem nefndin áleit rjett að skjóta inn, þetta, að uppbótin til starfsmanna Búnaðarfjel., ráðunauta o.fl.,fari eftir sömu reglu og uppbót til starfsmanna landsins. Að vísu má líta svo á, að það þyrfti ekki að sjást, en það getur ekki skemt, að því sje skotið inn.

Þá er talsverð upphæð, sem nefndin sá sig neydda til að bæta inn. Það er 2200 kr. styrkveiting til að fullgera Miklavatnsmýraráveituna. Á seinasta fundi nefndarinnar barst henni brjef þess efnis, frá vegamálastjóra, að bráðnauðsynlegrar aðgerðar þyrfti með. Það hafði komið fram, að Þjórsá kastaði sandi upp að skurðmynninu og stoppaði hann svo, að vatnið gæti ekki runnið inn, og að þetta þyrfti aðgerðar við, og jafnframt þyrfti að sprengja í stöku stað upp úr botni aðfærsluskurðarins klappir, er einnig hindruðu framrensli vatnsins. En það fylgdi ekki með í samningi þeim, er gerður var við þá Ágúst Helgason í Birtingaholti og Gest Einarsson á Hæli, að þeir græfu skurðinn dýpra niður en ofan á klöpp, þar sem hún kynni að verða fyrir. Nefndin áleit því, þegar ekki var um meira að ræða en 2200 kr., að sjálfsagt væri að veita þetta, svo að ekki strandaði á því, að hægt væri að njóta verksins, sem þegar er búið að leggja svo mikið fje í.

Þá hefir nefndin lagt til að hækka sandgræðslustyrkinn um 1000 kr. hvort árið, og er gerð grein fyrir því í nefndarálitinu.

Þá er breyting við 12. lið b., sem ekki er getið um í nefndarálitinu, sú að hækka styrk Gísla Guðmundssonar, gerlafræðings, upp í 1800 kr. Að vísu hefir hann nú launahækkun, meðan hann veitir forstöðu efnarannsóknarstofunni, en það hefir kostað hann það, að hann hefir orðið að segja sig frá ýmsum öðrum störfum, og er þá ekki svo auðhlaupið að því fyrir hann að ná þeim aftur, þegar hann missir þetta starf, sem honum er falið til bráðabirgða; hefir hann ekki eftir nema einar 1500 kr., þar sem hann er þá búinn að missa af öllum öðrum störfum, er hann hafði áður. Því taldi nefndin sanngjarnt, að laun hans væru að einhverju leyti hækkuð.

Þá er dálítil breyting við 17. liðinn. Það er, held jeg, engin efnisbreyting, upphæðin látin halda sjer, liðurinn að eins orðaður öðruvísi, og hygg jeg það í fullu samræmi við það, sem formælendur liðsins hafa ætlast til.

Þá er komið að hinni verulegustu hækkun fjárveitinganefndar, um að hækka laun verslunarerindreka erlendis um 8000 kr. Það er hin mesta hækkun, næst dýrtíðarstyrknum til Landakotsspítalans. Þetta stafar af því, að nefndin leit svo á, að þessar 4000 kr. til verslunarerindreka erlendis væru svo lítil laun, að fyrir þá upphæð myndi ekki hægt að fá neinn mann nú á tímum, og að það mætti ekki minna vera en það, sem fjárveitinganefnd Nd. lagði til, sem sje 12000 kr. En nefndin ætlaðist jafnframt til þess, að þegar búið væri að slá þessu föstu, þá yrði annar erindrekinn síðar, eða alt eins og engu síður, skipaður eða útsendur fyrir hönd landbúnaðarins sem sjávarútvegsins. En eins og bent er á í nefndarálitinu þá datt nefndinni það í hug, að skeð gæti, að nota mætti þennan erindreka, á meðan landbúnaðurinn hefir engum sjerstökum manni eða erindreka á að skipa, til þess að kynna sjer niðursuðu á kjöti og flutning á frystu kjöti til útlanda og öðrum þeim efnum, sem landbúnaðinn varða.

Við 21. liðinn er samskonar athugasemd og áður við 3. lið þessarar greinar.

Þá er næsta brtt. við 23. lið a., um laun 4 síldaryfirmatsmanna. Eru þau hækkuð um 800 kr., og er það tilætlun nefndarinnar, að sú hækkun gangi til þeirra tveggja, sem nú hafa lægst laun, sem sje til yfirsíldarmatsmannanna fyrir austan og vestan, svo að þeir allir komi til að hafa jafnt, 1000 kr.

Við 28. liðinn er brtt., sem ekki er getið um í nefndarálitinu; það er til bóndans á Tvískerjum, að hann fái einnig 300 kr. seinna árið. Jeg hygg, að það megi fremur telja það leiðrjettingu á ritvillu, og að það geti ekki hafa verið meining háttv. Nd. að fella styrkinn burt síðara árið.

Þá er brtt. um að flytja þrjá menn úr 18. gr. yfir í þessa grein. Það er fyrst Elín E. Briem, og eru henni ætlaðar 1000 krónur fyrra árið, fyrir vel unnið starf, en hins vegar telur nefndin efnahag hennar svo háttað, að hún muni ekki styrks þurfandi, Sama er að segja um Einar Guðmundsson. Nd. hefir í 18. gr. tekið það fram, að styrkur þessi væri að eins fyrra árið. Virtist nefndinni því betra, að það stæði hjer, en ekki í 18. gr. Enn fremur hefir nefndin lagt til, að styrkurinn til ekkjufrúar Emilie Lorange væri að eins fyrra árið, í staðinn fyrir, að í frv. stendur styrkur fyrir bæði árin, en sjálf fer frúin að eins fram á 500 króna styrk á fjárhagstímabilinu; er styrkur þessi veittur með tilliti til þess, að þörfin fyrir hann muni vera rík. Þá er viðurkenningin til Magnúsar smáskamtalæknis Guðlaugssonar á Bjarnastöðum. Þessi maður er kominn á sjötugsaldur og hefir fyrir mörgum börnum að sjá. Hann hefir verið — eftir því sem nefndinni hefir verið skýrt frá — mjög þarfur, enda þótt hann væri ólærður læknir; hefir henni verið svo frá skýrt, að hann hafi reynst bjargvættur margra manna, bæði í Strandasýslu, Dalasýslu og jafnvel í Húnavatnssýslu, og hafi hann þannig eytt bæði tíma sínum og kröftum til hjálpar öðrum, en nú er hann kominn að fótum fram, og á, eins og jeg sagði, mörg börn í ómegð. Vitanlega er þessi 500 króna styrkur í eitt skifti fyrir öll ekki til að bæta verulega úr erfiðum hag hans, heldur miklu fremur til þess að gleðja þetta gamalmenni og sýna honum viðurkenningu fyrir vel unnið starf.

Við 18. gr. hefir nefndin ekki lagt til að miklar breytingar yrði gerðar. Að eins að hækka styrkinn til prófastsekkju Jóhönnu S. Jónsdóttur. Venjan er sú, að úr því að launaviðbót er veitt þannig lagað, þá er það ekki haft minna en 300 krónur; en um þessa prófastsekkju er það segja, að maður hennar var einn af þeim mestu og bestu kennimönnum þessa lands, Zophonias Halldórsson. Auk þess er kjörum konu þessarar svo háttað, að hún er blásnauð, en er sárilla komin að heilsu.

Svo er einn maður, sem nefndin leggur til að bætt sje inn í þessa grein. Það er Jónas Eiríksson, sem var forstöðumaður Eiðaskólans, að mig minnir í 17 ár; leysti hann starf það af hendi með heiðri og sóma. Leit nefndin svo á, að þetta væri í fullu samræmi við það, sem áður hefir verið gert, að þessum manni beri að veita viðurkenningu.

Jeg skal svo ekki fara fleirum orðum um brtt. nefndarinnar, en víkja nokkrum orðum að brtt. frá einstökum þingmönnum.

Þá skal jeg fyrst nefna brtt. við 12. gr. 5., á þgskj. 831, frá háttv. 2. þm. G.-K. (K. D); fer hún fram á að veita hreppsbúum í Kjósarhreppi 300 krónur hvort árið til að leita sjer læknishjálpar. Væntanlega. er þessi till. í samræmi við það, sem átt hefir sjer stað í fjárlögum áður; ekkert nýtt held jeg að hafi bæst við í þessu skyni í fjárlögunum, nema styrkurinn til Flateyjarhreppsbúa í Þingeyjarsýslu, en þar er ekki farið fram á nema 100 krónur hvort árið; hjer er aftur á móti farið fram á 300 krónur. Nefndin hefir ekki getað fallist á þessa till., en ekki heldur gert nein samtök á móti henni, þótt henni þyki hjer helst til frekt í farið.

Brtt. frá sama háttv. þm. (K. D.), við 12. gr. 17. i, á þgskj. 832, lætur nefndin alveg afskiftalausa og hefir ekkert á móti henni.

Þá er brtt. á þgskj. 829, við 14. gr. B. X, frá háttv. þm. Ísaf. (M. T.), um að hækka styrkinn til kvenfjelagsins Ósk, úr 1600 krónum í 1800. Nefndin hefir ekki getað fallist á þessa tillögu, því að henni virðast ekki nægar ástæður hafa komið fram fyrir henni, sjerstaklega ef þess er gætt, að líkur eru fyrir, að skólahald leggist niður í vetur.

Brtt. er komin frá háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) við brtt. nefndarinnar við styrkinn til skálda og listamanna. Þar er farið fram á, að í stað 12000—14000 komi 13400—15400, og til vara 13000 —15000. Nefndin hefir orðið að vera á móti þessu, og heldur hún sjer við þær upphæðir, sem hún sjálf hefir lagt til að samþyktar verði.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) hefir komið með brtt. við 15. gr. 20. d., um byggingu yfir listasafn Einars Jónssonar. Leggur hann það til, að þessum 40000 króna, sem verja á til byggingarinnar, verði slept. Talsverður veigur er í þessari tillögu, og sparnaður ef hún yrði samþykt. En nefndin lítur hins vegar svo á, að eins og nú er komið verkinu, muni tæplega vera unt að hætta við það. Jeg benti á það, þegar þetta mál kom fyrst fyrir þingið, að þetta fyrirtæki mundi verða talsvert dýrara en mönnum var þá skýrt frá, enda hefir einnig sú raunin orðið á. En nú er ofseint að hætta. Veggir eru langt komnir, og yrði það til háðungar fyrir þennan bæ, og land alt, ef svo búið væri látið standa. Nefndin mun því ekki greiða þessari brtt. atkv.

Aftur á móti er brtt. frá háttv. þm. Snæf. (H. St.), á þgskj. 840, um að svo hljóðandi athugasemd bætist aftan við sama lið: »Stjórninni er heimilt að fresta þessari fjárveitingu meðan stríðið stendur yfir og efni og vinna verða ekki að mun ódýrari«. Nefndin viðurkennir, að margt mælir með þessari brtt., og mun greiða atkv. með henni.

Þá er brtt. frá sama háttv. þm. (H. St.), á þgskj. 841, við 15. gr. 27, um styrkinn til Helga Jónssonar. Vill hann láta setja það inn í athugasemdina við liðinn, að stjórnarráðið úrskurði reikning þann, sem frá þessum manni komi. Nefndin lítur svo á, sem þetta sje í raun og veru óþarfi, því að það liggur í hlutarins eðli, að stjórnarráðið getur ekki látið útborga reikning, sem það álítur vera rangan. En fyrst að þessi till. er á annað borð fram komin, þá virðist nefndinni ástæðulaust að amast við henni.

Sami háttv. þm. (H. St.) hefir enn fremur komið með brtt. á þgskj. 842, við 15. gr. 49, um styrkinn til Guðmundar Hjaltasonar. Fer hann fram á, að styrkurinn sje hækkaður úr 800 kr. upp í 1000 kr. hvort árið. Meiri hluti nefndarinnar er á móti þessari brtt. og telur 800 kr. nægar. Ekki er það fyrir þá sök, að honum virðist ekki þessi maður eiga alt gott skilið, en honum finst ástæða til þess að ætla, að styrkurinn muni ekki koma að meiri notum, þótt hann verði hærri. Jeg er ekki í neinum vafa um, að þessi maður hafi verið ánægður með þann styrk, sem hann hefir haft, þó að hann hafi ekki meiri verið. Enda er maðurinn gæddur þeirri sjaldgæfu gáfu, að geta gert sig ánægðan með lítið.

Þá kem jeg að brtt. hv. 4. landsk. þm. (G. G.) á þgskj. 837, við 16. gr. 20, um að láta 8000 kr. nægja til erindreka Fiskifjelagsins, í stað 12000, sem nefndin stingur upp á. Nefndin hefir vitanlega ekki getað aðhylst þessa brtt., því að hún telur ekki veita af þeirri upphæð, sem hún hefir sjálf mælt með.

Háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) hefir komið fram með brtt., á þgskj. 833, um að bæta við nýjum lið 500 kr. fjárveitingu hvort árið til Jóns Helgasonar, fyrv. vitavarðar á Reykjanesi. Meiri hluti nefndarinnar hefir orðið að leggja á móti þeirri tillögu.

Þá er að lokum brtt. á þgskj. 830, við 21. gr., frá háttv. þm. Ísaf. (M. T.), um að Ísafirði sjeu lánaðar 90000 kr. til raflýsingar. Er þessi brtt. í fullu samræmi við gerðir þingsins í vetur, enda eðlilegt, að Ísafjörður hafi hjer sama rjett og aðrir, en við búið, að landssjóður hafi ekki handbært nægilegt fje.

Jeg hefi svo ekki meira að segja að sinni. Jeg lofaði í upphafi ræðu minnar að reyna að vera stuttorður, og held jeg, að mjer hafi tekist það, eftir atvikum, sæmilega vel. Því að á margt hefir þurft að minnast, eins og í liggur í hlutarins eðli.