15.09.1917
Efri deild: 58. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (1102)

72. mál, hagnýt sálarfræði

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það er alveg rjett hjá háttv. framsögumanni (M. T.), að jeg hefi lýst yfir því áður, í sambandi við annað mál, sem hjer var á dagskrá, að jeg væri þessu frv. fylgjandi.

Háttv. frsm. (M. T.) tók það fram, að háskólaráðið hefði ekki lagt það til, að þetta embætti yrði stofnað, en hins vegar hefði heimspekideild Háskólans verið því mjög meðmælt og lagt það til, að þessum manni yrði veitt embættið. Jeg hefi þessa umsögn háskólaráðsins fyrir mjer í afriti. Segir í því skjali, að háskólaráðið vilji ekki eiga frumkvæðið að því, að embættið sje stofnað, en ef Alþingi sjái sjer það fært, þá telur það þennan mann, sem hjer er um að ræða, vel til starfans fallinn.

Jeg vil því leyfa mjer að minnast stuttlega á nefndarálitið, eins og háttv. frsm. (M. T.) gerði sjálfur.

Það er rjett, sem þar stendur, að háskólaráðið hefir ekki viljað segja neitt af eða á um stofnun embættisins, en hvað því viðvíkur, að ekki hafi enn verið neitt gagn sjáanlegt af starfi þessa manns, þá hygg jeg þó, að ekki verði neitað, að fyrirlestrar þeir, sem hann hefir haldið um þetta efni, hafi verið gagnlegir, og jeg veit, að hann hefir bent á ýmislegt til bóta við fiskverkun, sem þegar hefir verið tekið til greina með góðum árangri. Einnig hefi jeg átt kost á að sjá verklegar tilraunir heima hjá honum og getist mjög vel að. Sjerstaklega þótti mjer mikið koma til tilrauna hans með slátt á túnum. Jeg þykist sjálfur bera nokkuð gott skyn á slátt, og helst af vinnubrögðum öllum, og get jeg ekki annað sagt en að tilraunir hans hafi komið vel heim við margra ára eftirtekt mína. Og ef starf hans yrði til þess að bæta verklag þjóðarinnar, þá gæti ómetanlegt gagn af því leitt. Það er alveg rjett, sem tekið hefir verið fram, að ef til vill hefir eitthvað skort á undirbúning mannsins, en þó hefir hann komist lengra en búast hefði mátt við. Er það alt atorku hans og dugnaði að þakka.

Þar sem nefndin tekur það fram, að alt sje óráðið um Háskólann, þá er nú það mál, eins og kunnugt er, alt komið til ákveðins vegar.

Hvað viðvíkur þeirri rökstuddri dagskrá, sem fylgir nefndarálitinu, þá skil jeg ekki, að neitt nýtt geti af því leitt að vísa málinu til háskólaráðsins, því að frá því er naumast að vænta annars en þegar er komið. Annars vil jeg taka það fram, að jeg hefi aldrei litið svo á, að Háskólinn hafi verið til þess eins stofnaður að steypa saman þessum þremum deildum, lögfræðideild, læknadeild og guðfræðideild. Þarna eiga að þróast sem flest menningarblóm þjóðfjelagsins. Og kennararnir við þessa stofnun eiga að vera leiðsögumenn í hverskonar fræðum, bóklegum og verklegum, engu síður hinum verklegu, þegar þjóðin sjer sjer fært og völ er á hæfum mönnum í þeim vísindagreinum. Jeg legg sjerstaka áherslu á, að þar fari fram kensla í ýmsum hagnýtum fræðum. Þesskonar mun vera sameinað hjá öllum mentaþjóðum nú orðið.

Hjer er ekki um sjerstakan kostnaðarauka að ræða á þessu fjárhagstímabili. En þar sem þetta embætti á að vera bundið við nafn, svo sem oft tíðkast erlendis, þá er landssjóði vitanlega bundinn baggi, meðan maðurinn getur gegnt starfinu. En sje nú þessu tækifæri hafnað, þá óttast jeg, að þjóðin fái ekki að njóta þessa manns til langframa, ef honum er ekki gefinn kostur á lífvænlegri stöðu, og það hygg jeg að væri misráðið af þessari háttv. deild að verða slíks valdandi.

Af þessum ástæðum og öðrum fleirum, er jeg hirði ekki að tína til, mun jeg greiða frv. atkv. og veiti því mín bestu meðmæli.