15.09.1917
Efri deild: 59. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

72. mál, hagnýt sálarfræði

Frsm. (Magnús Torfason):

Eins og jeg drap á við síðustu umr. um doktorinn þá lítur út fyrir, að hjer sje beitt æði vísindalegri vinnuaðferð um þetta frv. Eins og við vitum þá flaut það gegnum háttv. Nd. á eins atkv. mun, og við síðustu umr. hjer munaði líka að eins einu atkv.

Það lítur út fyrir, að það sje þröngt nálaraugað, sem frv. smýgur í gegnum, en jeg sje ekki betur en að enn þá sje eftir það síðasta.

Eins og við vitum þá höfum við nýlega samþ. fjárlög fyrir árin 1918 og 1919, og þar er þessum háttv. manni heitin 3000 kr. fúlga til að vinna að þessum vinnuvísindum sínum.

Ef frv. það, er hjer liggur fyrir, verður samþ., fæ jeg ekki betur sjeð en að viðkomandi eigi heimting á bæði prófessorslaununum og þessari 3000 kr. fúlgu næstu tvö árin, og kalla jeg þá vel að verið, bæði hjá honum og hinu háa Alþingi.

Jeg vil því spyrja háttv. fjárveitinganefnd og hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), hvernig hann líti á þetta atriði.