08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Kristinn Daníelsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma með brtt. á 4 þgskj., þótt þær muni flestar þykja heldur smávægilegar, enda skal jeg ekki þreyta menn á löngu máli um þær.

Jeg kem þá fyrst að brtt. á þgskj. 831, um styrk til hreppsbúa í Kjósarhreppi, til þess að leita sjer læknishjálpar, 300 kr. hvort árið. Jeg hygg, að hv. deildarmönnum sje kunnugt um þá erfiðleika, sem þessi afskekta sveit á við að búa í þessu efni. Hún varð fyrir því einsdæmi í sögu læknisskipunarinnar, að læknir var tekinn af henni, sem hún var þegar búin að fá. Hefir verið farið fram á það, hvað eftir annað, við þingið, að læknir fengist aftur, en menn hafa þreyst á því, sökum þess, að allar tilraunir í þá átt hafa orðið árangurslausar. Nú er hins vegar reynt að fá þingið til að ljetta dálítið undir með hjeraðsbúum með smávegis fjárveitingu. Jeg leyfi mjer að vænta þess, að deildin sjái sjer nú fært að verða við þessum óskum, og samþykki brtt.

Um brtt. á þgskj. 832 þarf jeg ekki að tala, því að háttv. framsögumaður nefndarinnar (E. P.) hefir lýst yfir því, að nefndin hafi ekkert á móti því, að styrkurinn verði færður yfir á fyrra árið. Þessi nemandi, sem hjer ræðir um (Lára Sigurðardóttir), er búinn að vera eitt ár við nám sitt og býst við að verða þrjú ár í alt. Virðist því eiga vel við, að hún fái styrkinn á miðju námsskeiðinu.

Þá er brtt. á þgskj. 833. Þar er farið fram á, að Jóni Helgasyni, fyrv. vitaverði á Reykjanesi, verði veittar 500 kr. hvort árið. Nefndin mun hafa kynt sjer málefni þessa manns af skjölum þeim, sem borist hafa þinginu, og svo er vafalaust um fleiri þingmenn. Þessi maður hefir verið við vitavarðarstarf í 30 ár og stundað verk sitt vel, og er mjer persónulega kunnugt um, að hann hafði mikla ánægju af því að stunda þetta starf. En árið 1915 báru hásetar á skipi nokkru á hann, að vitinn hefði staðið nokkra stund, er ljós átti að vera á honum. Sjálfur hefir hann og menn hans ávalt borið á móti þessu og þóst geta fært sönnur á, að þessi áburður væri með öllu rakalaus. Svo hafa og nábúar hans borið það, að þeir hyggi víst, að hann hafi rjett fyrir sjer í þessu. Enn fremur hafa honum gagnast vitni fjölda skipstjóra, er telja vitann ávalt hafa verið í besta lagi. En alt hefir þetta komið fyrir ekki. Manninum var vikið úr stöðu sinni án allrar rannsóknar eða án þess að yfirheyra vitavörð og heyra, hvaða málsbætur hann hefði fram að færa. Var þetta gert á versta tíma árs, í byrjun júlímánaðar, þegar allir eru búnir að ráðstafa sjer í sumarvinnu, enda stóð nú maðurinn uppi vegalaus og ráðalaus með stóran barnahóp. Jeg geri ráð fyrir, að jeg þurfi ekki að lýsa þessu meir, en viss er jeg þess, að margur maðurinn hefir nú full eftirlaun hjer á landi, sem meiri sakir hafa verið á en þessum manni. Nú á hann afarerfitt uppdráttar, og vona jeg, að deildin sje mjer samdóma um það, að hann sje ekki óverðugur þess að hljóta þennan lítilfjörlega styrk, sem farið er fram á í brtt. Þó að mjer sje kunnugt um, að hugur hans hafi helst staðið til þess að fá eftirlaun, þá hefi jeg þó sett hann í 16. gr., því að jeg hugsa ekki til, að styrkurinn verði veittur nema á þessu fjárhagstímabili. Ástæðan til þess að samþykkja þetta er því meiri, sem ekki vantaði nema herslumuninn til þess, að það yrði samþykt í háttv. Nd. um daginn.

Þá kem jeg að fjórðu brtt. minni, á þgskj. 838, um styrkinn til skáldanna. Jeg geri ekki ráð fyrir, að það muni þykja vinsælt verk að fara fram á að fá þann styrk hækkaðan, eða líklegt til kosningabeitu. En jeg verð að játa það, að jeg hefi ávalt haft veikleika fyrir þeim mönnum, sem halda uppi bókmentaorðstír landsins, því að þar eigum við vorn besta auð.

Háttv. frsm. (E. P.) mælti á móti brtt. minni, en jeg heyrði ekki á ræðu hans, að hann hefði athugað, til hvers jeg hefði ætlast með þessari hækkun. Vona jeg því, að nefndin líti öðruvísi á málið, er hún hefir heyrt ástæður mínar fyrir brtt. Jeg hefi haft skáldið Guðmund Guðmundsson fyrir augum með þessari hækkun. Eins og mönnum er kunnugt sótti Einar Hjörleifsson um 2400 kr. styrk, og tók stjórnin þá umsókn til greina og hækkaði skáldastyrkinn úr 11000 í 12000 í fjárlagafrv. sínu með það fyrir augum. Fjárveitinganefndirnar hafa verið þessu samþykkar, og er vonandi, að hann fái þessa fjárupphæð. Því fer líka mjög fjarri, að jeg vilji draga úr því, að sá maður njóti góðs, en mjer virðist Guðmundur Guðmundsson standa honum að miklu leyti jafnfætis, og að allar ástæður sjeu svipaðar. Hagur þeirra beggja er að því leyti líkur, að báðir munu eiga örðugt með að hafa ofan af fyrir sjer með öðru en því góða pundi, sem þeim er gefið, ef þeir eiga á annað borð nokkuð við það að fást. Það vita allir, að lítill gróðavegur er að bókaútgáfu hjer á landi, en þjóðin eignast ljóðin; þau verða auður hennar, og mundi hún vilja þá menn ókvalda, er gefa henni jafngóðan auð.

Guðmundur Guðmundsson er mjög vinsælt skáld, enda er snildin frábær á verkum hans. Auk þess eru ljóð hans siðbætandi og holl. Einn af ágætustu gáfumönnum þessa lands sagði, þegar bók hans »Friður á jörðu« kom út, að ef hún hefði komið út hjá stórþjóð, þá mundi höfundurinn hafa hlotið Nóbelsverðlaun fyrir, en því miður er ekki slíku til að dreifa hjer á landi. Afkastamaður er Guðm. Guðmundsson mjög mikill, og hefir nú gefið út á þessu ári gullfallegt ljóðasafn. Ætti því vel við, að þjóðin sæi þetta við hann og hækkaði nú styrkinn nokkuð. Annað verk mun hann hafa í smíðum, og segja þeir menn, er sjeð hafa, að það muni verða ágætisverk.

Jeg vona, að jeg þurfi ekki meira um þetta að segja. Þessi maður hefir notið 1000 kr. styrks undanfarið, og nú fer jeg fram á, að styrkur til hans verði hækkaður um 1400 kr. og gerður jafn styrknum, sem Einari Hjörleifssyni er ætlaður. Þó hefi jeg látið varatillögu fylgja, ef vera mætti, að mönnum geðjaðist hún betur. Vona jeg, að háttv. deildarmönnum vaxi þetta ekki svo í augum, að þeir geti ekki orðið við tilmælum mínum, og vænti jeg þess, að þessi maður verði ekki látinn gjalda þess, að jeg hefi flutt mál hans, af vanefnum mínum og ekki eins vel og skyldi.

Aðrar tillögur mun jeg lítt minnast á, en sýna með atkvæði mínu, hvernig jeg lít á þær. Þó er ein tillaga, sem jeg get ekki leitt hjá mjer að minnast lítið eitt á. Það er 27. brtt. nefndarinnar, um styrkinn til Flensborgarskólans. Leggur nefndin til, að hann sje því að eins veittur, að 1000 kr. tillag komi og frá Hafnarfirði og Gullbringusýslu. Vona jeg fastlega, að nefndin haldi ekki fast við þetta og að deildarmenn lagfæri þetta í frv., því að ákvæðið má ekki fyrir nokkurn mun standa. Það er beinlínis tilræði við skólann. Það hefir aldrei áður verið hugsað til þess, að skólinn skyldi eiga tilveru sína undir þessum sveitarfjelögum, heldur ávalt farið með hann sem landsskóla og hann verið styrktur eftir þörf af þingi. Nemendur hafa einnig sótt skólann hvaðanæfa af landinu, og sýnir það bæði, hve mikla þörf hann hefir bætt og hve velmetinn hann hefir verið. Jeg get alls ekki búist við, að Hafnarfjörður vilji leggja neitt meira til skólans en hann þegar gerir. Lætur hann skólanum í tje ýms hlunnindi, svo sem ókeypis vatn og ljós, og auk þess leikfimihús. Meira er ekki hægt að ætlast til af Hafnarfirði, því að hann hefir að sjálfsögðu ekki neinar sjerstakar skyldur við skólann. Og enn fjær sanni er að ætlast til, að Gullbringusýsla leggi sjerstaklega til skólans. Og hví er þá ekki Kjósarsýsla tekin með? Gullbringusýsla virðist eiga þess að gjalda, að hún liggur upp að Hafnarfirði, en það gerir Kjósarsýsla líka, og alt er þetta í sama lögsagnarumdæminu, svo að mjer er ómögulegt að sjá, hvað sú aðgreining á að þýða. Annars veit jeg með vissu, að Gullbringusýsla leggur ekkert til skólans, enda hefir hún nógar aðrar byrðar að bera. Og þótt sýslan liggi að þessum kaupstað, sem skólinn er í, þá notar hún hann ekki meir en aðrar sýslur. Það má sjá í skýrslum skólans, að undanfarandi ár hafa t. d. verið 5—7 nemendur að meðaltali úr Húnavatnssýslu, en ekki nema 1—3 úr Gullbringusýslu. Stæði þá nær Húnavatnssýslu að leggja eitthvað af mörkum til skólans, ef eftir þessu ætti að fara, heldur en Gullbringusýslu. Þessi athugasemd er því ekki á neinum rökum bygð, og getur háttv. deild ekki látið frv. frá sjer fara með henni. Hún myndi ríða skólanum að fullu, en það var víst ekki tilgangurinn. Ætli þingið að varpa frá sjer þessum skóla, með þeim vinsældum, sem hann á að fagna um land alt, með því stórmikla gagni, sem hann hefir gert, og sögu hans, myndi það fara öðruvísi að. Að vísu veit jeg, að ýmsar raddir hafa oft risið hjer í þinginu á móti skólanum, en þó hefir betri kosturinn altaf verið tekinn, að styrkja hann eftir þörfum, og vona jeg, að svo verði einnig nú. Læt jeg svo útrætt um þetta atriði, í þeirri von, að háttv. fjárveitinganefnd og háttv. deild haldi ekki fast við þessa brtt.

Þá vil jeg drepa á 39. brtt. nefndarinnar, á þgskj. 811. Það er styrkurinn til Frímanns B. Arngrímssonar. Neðri deild samþykti að veita honum 600 kr. hvort árið, en nú leggur háttv. fjárveitinganefnd til, að styrkur þessi verði að eins veittur fyrra árið. Jeg veit ekki, hvort þessi maður á nokkra formælendur hjer í háttv. deild, og vildi jeg því leggja honum liðsyrði. Maðurinn er mjög gáfaður og hefir haft brennandi áhuga og löngun til að vinna fósturjörð sinni gagn, þótt auðnan hafi eigi brosað við honum. Hann hefir barist við fátækt erlendis, árum saman, og er nú hniginn að aldri. En þótt hann sje nú aldraður, hefir hann enn löngun til að vinna. Vil jeg því fastlega mæla með því, að styrkurinn verði látinn standa óhaggaður.

Þá leggur nefndin til, að fjárveitingin til þess að semja íslenska orðabók, verði lækkuð um helming, eða úr 6000 niður í 3000 kr. Jeg verð að telja það misráðið, að háttv. nefnd hefir komist að annari niðurstöðu í þessu efni en háttv. Nd. Jeg hefi ávalt litið svo á, að þetta væri ekki eins manns verk, ef það ætti að koma að nokkru gagni. Með öðrum þjóðum vinna ætíð margir menn að slíku verki. En þótt vjer sjeum fáir og fátækir, þá er tunga vor þó eins auðug og annara þjóða, og síst minni fyrirhöfn að semja vísindalega orðabók yfir hana. Væri því vert, að við legðum fram krafta okkar til þessa starfs. Jeg hygg því rjettara, að þessi háttv. deild yrði samferða systurdeild sinni í þessu atriði.