27.07.1917
Neðri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

74. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Jón Jónsson):

Jeg hefi komið fram með frv. þetta meðal annars vegna þess, að jeg sje, að mönnum þykir nú nauðsyn bera til að hækka laun hreppstjóra, úttektarmanna og annara manna, er störfum gegna fyrir sveitar- eða sýslufjelög. Mjer finst þá um leið vera ástæða til að hækka laun hreppsnefndaroddvita og sýslunefndarmanna. Laun þeirra eru nú svo lág, að full ástæða væri til að hækka þau, jafnvel þótt ekki væru stríðstímar. Þess er vert að gæta, að eftir lögum þeim, sem nú gilda, eru laun oddvitanna sumstaðar töluvert lægri en eftir eldri lögum. Þó mun aldrei hafa verið til þess ætlast, að núgildandi lög færðu launin niður frá því, sem áður var. Samt er það svo, að nú geta oddvitalaunin komist niður í 40 kr. í einstöku hreppum. En eftir eldri lögunum voru þau 60—80 kr.

Í frv. á þgskj. 91 er farið fram á, að laun oddvita hækki í hlutfalli við fólksfjölda í hreppunum, og fæ jeg ekki skilið, að sú hækkun á laununum yfirleitt, sem fram á er farið í frv., geti þótt ósanngjörn.

Hvað viðvíkur launum sýslunefndarmanna, þá er farið fram á, að þau sjeu hækkuð um þriðjung, eða úr 4 kr. upp í 6 kr. á dag. Er varla hægt að segja, að þeir sjeu ofhaldnir af því. Góða menn þarf að velja til þessara starfa, en þá má ekki borga þeim miklu minna en alment er borgað við aðra vinnu. Og þótt teknir sjeu menn, sem eiga með sig sjálfir, þá getur oft verið bagalegt fyrir þá að fara frá starfi sínu, og stundum þurfa þeir að kosta ærnu fje og fyrirhöfn til þess að komast á sýslufund. Jeg vænti því, að frv. þetta fái góðar undirtektir hjer í deildinni, og leyfi jeg mjer að leggja til, að því verði vísað til allsherjarnefndar, að þessari umr. lokinni.