08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

74. mál, sveitarstjórnarlög

Sveinn Ólafsson:

Jeg skal kannast við, að jeg gerði ekki ítarlega grein fyrir því, hvernig jeg fekk út þennan 100 kr. kostnað, enda voru heldur engar skýrslur fyrirliggjandi um lengd sýslufunda. (M. G : Maður þekkir það.) Jeg veit dæmi þess, að sýslufundir hafa staðið yfir í ½ mánuð. Auk þess þarf löng ferðalög í sumum sýslum, og taka þau ef til vill fleiri daga, og stígur því þessi kostnaður þá að sama skapi. Þessar 100 kr. voru að vísu ágiskun hjá mjer, en jeg hygg, að það fari ekki fjarri sanni. Að sýslufundir standi ekki yfir nema í viku þekki jeg ekki dæmi til; en enda þótt kostnaðurinn yrði minni, er þó samt sem áður að ræða um aðalástæðuna, sem jeg gat um áðan.