08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

74. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Einar Árnason):

Jeg skal ekki lengja umr. mikið. Það er skoðun margra, og hún styðst við rök, að sýslunefndarmenn skaðist á því að fá ekki nema 4 kr. á dag og verði að borga úr eigin vasa nokkuð af kostnaðinum við starf sitt.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hjelt því fram, að ekki mætti íþyngja sveitarsjóðum um of, og er það rjett, en ætli það sje þó ekki rjettara að íþyngja sveitarsjóðum en einstökum mönnum? Hvað miklu þetta nemur fyrir hreppana ætla jeg ekki að koma með áætlanir um, því að það hefir háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) þegar gert, en jeg geri ráð fyrir, að eftir því sem dagarnir eru fleiri, því verra verði það fyrir sýslunefndarmennina, ef þeir hafa persónulegan skaða af starfa sínum.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) taldi það illa farið, að menn vildu nú orðið ekki vinna í þarfir sveitarfjelags síns fyrir lítið eða ekki neitt. Þótt kaup sýslunefndarmanna verði hækkað, býst jeg við, að það verði langt frá, að þeir menn hætti að vinna í þarfir sveitarinnar fyrir lítið eða ekkert. Í hverju sveitarfjelagi eru margskonar störf, sem ekkert er borgað fyrir, og oftast lenda þau á einstaka mönnum, og þá ekki altaf þeim, sem helst þola það efnalega að fara að heiman og vera að heiman fyrir ekki neitt. Jeg get því ekki fallist á, að sú regla sje úr gildi fallin, að menn starfi með ósjerplægni í þarfir sveitarinnar, og jeg get ekki heldur fallist á, að það sje neinn beiningamannshugsunarháttur, þótt menn vilji fá sanngjarnt kaup fyrir vinnu sína. Og óviðeigandi tel jeg það að vilja láta þjóðfjelagið níðast á einstaka mönnum.