08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

74. mál, sveitarstjórnarlög

Jón Jónsson:

Af því að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) er ekki kunnugt um, að þjóðaróskir standi bak við þessa hækkun, vil jeg benda á það, að þegar ákveðið var hjer á þingi kaup sýslunefndarmanna, var ekki spurt um þjóðaróskir. Jeg hygg, að þingið verði að fara eftir eigin vilja í þessu efni, án þess að bera það undir þjóðarviljann. Þessar mótbárur eru því alveg ástæðulausar. Það á að vera regla þingsins, eins og háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.) tók fram, að ætla starfsmönnum hins opinbera sómasamlega borgun fyrir verk sín. Það er ósæmilegt að ætlast til þess, að menn fari að vinna fyrir aðra sjálfum sjer í skaða. Vitanlega má spenna bogann ofhátt með þetta, en það er ekki gert í þessu frv. Það er ógnarlega leiðinlegt að heyra menn tala um beiningamannshugsunarhátt í þessu sambandi; mjer finst það miklu fremur bera vott um betlara eða nurlarahugsunarhátt hjá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) að setja fyrir sig, hvort sýslunefndarmönnum er borgað 1 kr. meira eða minna á dag. Hann og allir aðrir ættu að vita, að það er orðið svo dýrt að fara að heiman og vera að heiman, að 6 kr. á dag er ekki einu sinni nóg til, að menn sjeu skaðlausir. Háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) hefir þegar hrakið, að kostnaðurinn, sem af þessari hækkun leiðir, sje svo mikið fje eins háttv. 1. þm. S.-M.

(Sv. Ó.) vildi halda fram. Það eru að vísu stundum langir sýslufundir í Suður-Múlasýslu, en jeg veit, að í Norður-Múlasýslu eru sýslufundarmenn ekki lengur frá heimili sínu en 8—10 daga, en þá getur þessi hækkun ekki numið meiru fyrir hreppinn á ári en hjer um bil 20 kr., og það ætti enginn hreppur að þurfa að setja fyrir sig. Yfir höfuð finst mjer það eiga að vera regla þingsins að skera ekki um of við neglur sjer og borga svo vel, að sómasamlegt geti talist. (H. K.: Það er það líka á venjulegum tíma.)