18.08.1917
Efri deild: 34. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

74. mál, sveitarstjórnarlög

Guðmundur Ólafsson:

Það mun ekki vera þakklátt verk að hafa á móti launahækkunum í þessari háttv. deild, en jeg get þó ekki stilt mig um að geta þess, að mjer virðist ekki brýn þörf á að hækka laun sýslunefndarmanna. Hækkunin er að vísu ekki mikil, en nemur þó ½. Hins vegar er jeg alveg sammála háttv. nefnd um það, að nauðsynlegt sje að hækka laun oddvita; um þá er alt öðru máli að gegna. Þeir hafa miklu verki að sinna, og það er illa borgað. En um laun sýslunefndarmanna er það að segja, að þótt þau sjeu að vísu ekki mikil, þá hygg jeg, að þeir þurfi naumast að eyða meiru, af því að fundir eru altaf haldnir að vetrarlagi. Mjer finst því litlu skifta, þótt þá sje ekki um verulegt kaup að ræða, því að menn eru óvanir því að fá mikið fyrir ómök sín um þann tíma árs. Mönnum kann að virðast, að þetta skifti ekki miklu máli, en mjer er kunnugt um, að tekjur sýslusjóða eru víðast hvar svo litlar, að þeir eru naumast færir um að gjalda þetta, eða hafa að minsta kosti margt þarfara við þær að gera. Jeg get þess t. d., að í Austur-Húnavatnssýslu nemur öll upphæðin, ef þessi brtt. nær fram að ganga, um 200 kr. á ári. Jeg treysti mjer því ekki til að greiða atkv. með 2. gr. frv., en er ánægður með 1. gr.