18.08.1917
Efri deild: 34. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

74. mál, sveitarstjórnarlög

Framsm. (Magnús Torfason):

Mjer þykir vænt um að heyra, að háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) er ánægður með 1. gr. frv. En að því er snertir þessa þóknun yfirleitt, þá er það um hana að segja, að venja hefir verið að níðast sjerstaklega á alþýðumönnum, sem gegnt hafa opinberum störfum. Nauðsyn ber til að kippa þessu í lag, því að hætta getur af því stafað fyrir sveitarfjelögin. Sjerstaklega skiftir það miklu máli, að ekki sje ofoft skift um oddvita. Við, sem höfum verið sýslunefndaroddvitar áratugum saman, vitum, hvað það getur oft valdið mikilli óreiðu og ringulreið og staðið áhugamálum sveitarfjelaganna ónotalega fyrir þrifum.