08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Háttv. þm. Snæf. (H. St.) minti mig á eitt atriði, sem mjer láðist að geta um áðan. Það var 39. brtt. á þgskj 811, sem jeg get ekki verið með. Hún fer fram á að taka 600 kr. styrkinn af Frímanni B. Arngrímssyni síðara árið. Þessi maður er vel gáfaður og hefir áhuga á mörgu, sem að gagni mætti verða, svo sem notkun rafmagns o. fl. Leitar hann nú styrks þessa til að ferðast um landið og safna jarðar- og steintegundum og leggja þær síðan fram til rannsóknar. Nú getur hann alls ekki komist af með minna en 2 ár til ferða þessara og rannsókna, og bersýnilegt er, að ekki er ofreiknaður ferðakostnaðurinn á 600 kr. hvort árið. Mannsins vegna álít jeg það ekki til ofmikils mælst, að einu sinni komi í ljós, að þjóðin vilji sinna áhuga hans, og verði það sýnt með því að láta hann hafa styrk þennan óskertan. Jeg mun því ekki greiða atkv. með þessari brtt. nefndarinnar.