26.07.1917
Neðri deild: 18. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

80. mál, notkun bifreiða

Sigurður Sigurðsson:

Það er næstum auðheyrt á háttv. þm. Mýra. (P. Þ.), að hann muni líklega vera gerður út af einhverju bifreiðafjelaginu hjer, til þess að hefta framgang þessa frv. Jeg þarf ekki að svara honum; háttv. flm. (E. A.) mun einfær um það.

Jeg er þakklátur háttv. flm. (E. A.) fyrir þetta frv. En ástæðan til þess, að jeg kvaddi mjer hljóðs, er sú, að jeg vildi beina því til háttv. flm. (E. A) og væntanlegrar nefndar, hvort ekki mundi fært að ganga lengra en frv. gerir í þá átt að gera takmarkanir í notkun bifreiða. Fyrst og fremst vakir það fyrir mjer, hvort ekki mundi unt að takmarka tímann, sem bifreiðar eru á gangi fram eftir nóttu hjer í bænum. Það er alkunnugt, að hjer í bæ eru bifreiðar á ferð fram eftir allri nóttu, einkum á laugardagskvöldum og sunnudagskvöldum, og valda með því skarkala fyrir þá, sem sofa. Auk þess eru þessar næturferðir sjaldnast til fjár fyrir notendurna; þær munu oftast vera skemtiferðir fólks, sem stundum ver sínum síðasta eyri á þennan hátt. Þetta þætti mjer ástæða til að væri athugað.

Í annan stað er það, að á þingi 1914, þegar fyrst kom fram frv. það um notkun bifreiða, sem nú er lög, þá var það tillaga mín, að takmörkuð væri umferð bifreiðanna á vegum, t. d. að þeim væri eigi leyft að fara veginn austur í sýslur, nema á ákveðnum dögum; en sú tillaga hafði þá ekki fylgi, jafnvel þótt hún hefði við rök að styðjast. Jeg er enn þeirrar skoðunar, að rjettast sje að takmarka notkun bifreiða að þessu leyti. En samt geri jeg það ekki að kappsmáli; hitt þykir mjer liggja nær að takmarka næturferðirnar, t. d. svo, að bifreiðum sje bannað að vera á ferð í bæjum eftir kl. 10—11, nema þær komi annarsstaðar að.

Jeg vil enn fremur minna á það, að á þingmálafundum í Árnessýslu var því hreyft að leggja skatt á bifreiðar. Þótt jeg geri þetta ekki að beinni tillögu, vildi jeg þó gjarnan, að athugað væri, hvort þetta þætti kleift. Það er grunur sumra manna, að bifreiðaeigendurnir græði allmikið á þeim; það segja að minsta kosti þeir, sem standa utan við og á horfa. Þar á móti segja eigendurnir, að áhöld sjeu um það, að bifreiðarnar beri sig. En upp úr umsögn þeirra legg jeg ekki svo mikið, og yfirleitt er ekki gott um þetta að segja, nema reikningarnir sæjust. En hitt er áreiðanlegt, að hjer er um »luxus«-áhald að ræða, sem eigendurnir græða á og hafa sjer til skemtunar. Þess vegna má segja, að hjer sje um rjettlátan tekjustofn undir skatt að ræða.

En jeg vil í þessu sambandi benda á það, að bifreiðarnar fara illa með vegina. Síðan bifreiðar byrjuðu hjer þurfa vegirnir meira viðhald. Einkum eru trjebrýr á vegum altaf að bila. Þetta kemur hart niður, sjerstaklega á austursýslunum, sem kosta viðhald veganna.

Þá hefi jeg drepið á þau atriði, sem jeg vildi mælast til, að háttv. flm. (E. A.) og væntanleg nefnd tækju til yfirvegunar.