08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Kristinn Daníelsson:

Út af orðum þeim, sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E) sagði um ráðherraskiftin, þá voru þau sjálfsagt á rökum bygð, en mega ekki skiljast sem hula á, að augu kunni að vera opnari eftir en áður fyrir göllunum á þannig samsettri stjórn af öllum flokkum til frambúðar.

Jeg get lýst þakklæti mínu til háttv. þingdm. fyrir undirtektir þær, sem brtt. mínar hafa fengið. Þó hefi jeg ásett mjer að taka aftur till. á þgskj. 831, um styrk til Kjósarhrepps, og till. á þgskj. 833, um styrk til Jóns Helgasonar, í því skyni að koma með þær aftur í öðru formi við 3. umr. Geri jeg það í samráði við háttv. fjárveitinganefnd. Er það gert vegna þess, að hæstv. forseti hefir tjáð mjer, að hann telji sig ekki geta, samkvæmt þingsköpum, leyft þeim aðgang aftur, ef þær verða feldar nú. Vona jeg svo, að hæstv. forseti taki þetta til greina við atkvgr.