17.08.1917
Efri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

80. mál, notkun bifreiða

Framsm. (Hannes Hafstein):

Eins og háttv. þingdeildarmönnum er kunnugt, af nál. á þgskj. 462, hefir nefndin stungið upp á nokkrum breytingum á frv. þessu. Vil jeg leyfa mjer að gera stutta grein fyrir þessu.

Það þótti nokkuð hart aðgöngu að takmarka mesta ökuhraða við 10 km. á klukkustund, þótt í kaupstöðum og þjettbýli sje. Sá hraði er ekki meiri en hægt er að fara á sæmilegum hesti, jafnvel þótt hvílt sje við og við. Hraði bifreiðanna yrði því í raun og veru minni, því að ekki þurfa þær hvíldar við.

Við fengum beiðni um það frá kunnugum mönnum, að leyfður yrði 15 km. hraði, en okkur þótti varhugavert að fara fram á svo miklar breytingar frá því, sem samþ. var í háttv. Nd., og ljetum okkur því nægja að hækka takmarkið upp í 12 km.

2. brtt. nefndarinnar á við 3. gr. frv. Í frv. stendur, að hraðamælir skuli vera á hverri bifreið. En nú eru til ýmiskonar hraðamælar; sýna sumir vegalengdina í km., en aðrir í enskum mílum. Þetta gæti valdið ruglingi, og þótti nefndinni því rjett að setja ákvæði um, að hraðamælir þessir sýni vegalengdina í km.

Þá er 3. brtt. nefndarinnar, við 5. gr. frv., viðvíkjandi því, hvernig bifreiðarstjórar skuli vera merktir, svo að þeir þekkist og unt sje að láta þá sæta ábyrgð, ef þeir brjóta ökureglurnar.

Í frv. er ákvæði um það, að þeir skuli bera einkennishúfu, er á standi skrásetningarmerki bifreiðarinnar.

Nú er það ekki bifreiðin, sem brýtur lögin, heldur bifreiðarstjórinn, en hann getur farið úr einni bifreiðinni í aðra og ef til vill ekið 3—4 sama daginn.

Nefndinni þótti því rjett að orða þetta ákvæði svo, að á húfunni skyldi standa skrásetningarmerki þess umdæmis, þar sem hann hefir fengið skírteini, svo og tölumerki ökuskírteinis hans. Með þessu móti er vissa fengin fyrir því að þekkja má, hver brýtur, svo framarlega sem hann skiftir ekki um húfu.

Við 6. gr. frv. hefir nefndin að eins gert orðabreyting, sett orðið »gjaldvísir« í staðinn fyrir »leiðarmælir«, því að svo er til ætlast, að mælir sá sýni bæði, hve langt er farið og hve hátt er orðið gjaldið.

Síðari breytingarnar eru að eins leiðrjetting á skakkri tilvísun.

Hefir háttv. Nd. breytt greinatölunni á síðustu stundu og tilfært síðan skakka greinatölu.

Þá vil jeg geta þess, að sumum hefir þótt óheyrilegt að skylda aðra bifreiðarstjóra til að hafa einkennishúfur en þá, er aka bifreiðum til almenningsafnota, og hafa þeir viljað undanskilja þá, er hafa bifreiðar til eigin afnota.

Nefndin hefir samt ekki tekið þessar athugasemdir til greina, því að hún leit svo á, að þeir, sem hefðu efni á að kaupa bifreiðar til eigin afnota, mundu engu síður geta ráðist í það að kaupa einkennishúfu.