27.07.1917
Neðri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

92. mál, stofnun alþýðuskóla á Eiðum

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg vil leyfa mjer að benda á það, að í bráðabirgðaákvæði í frv. er einmitt tekið fram að nokkru leyti það, sem háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) hafði við frv. að athuga. Þar er landsstjórninni heimilað að reka skólann á hvern hátt, sem hentast þyki, meðan á heimsstyrjöldinni stendur. (P. J.: En samþyktirnar í frv. binda). Þær binda þó að minsta kosti ekki fyr en að stríðinu loknu. Hitt get jeg ekki felt mig við, að að eins sje veitt heimild til að stofna skóla, sem rekinn sje af landssjóði með tilstyrk sýslufjelaganna, eins og verið hefir um óákveðinn tíma, en engin endanleg ákvörðun tekin um það, hvernig skólanum skuli fyrir komið eftirleiðis. Mjer finst það vera altof teygjanlegt og óvíst.

Það er tekur til unglingaskóla, þá hefi jeg haft þá í huga, en ekki í sambandi við þennan skóla. Jeg hefi hugsað mjer, að 1 unglingaskóli kæmist á í hverri sýslu, en auk þess sje í hverjum landsfjórðungi 1 æðri alþýðuskóli, skóli, sem byggi menn undir hvers kyns störf í þjóðfjelaginu og veitti næga mentun til lærdómsdeildar Mentaskólans. Hafa menn úr öllum fjórðungum, sem jeg hefi borið þetta undir, verið hugmyndinni hlyntir, einkum Vestfirðingar. Þessi hugsun kemur fram í frv. En ef þessu frv. verður tekið eftir vonum, þá vantar slíkan skóla að eins í Vestfirðingafjórðung, en væntanlega verður ekki langt að bíða hreyfingar í þessa átt þaðan.

Hjer er þá að eins um lítilfjörlega sanngirniskröfu að ræða, sjerstaklega þegar litið er til þess, hve mikið er lagt af mörkum, enda er þá með því skapað gott fordæmi fyrir þá, sem seinna kunna að ríða á vaðið.