06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

92. mál, stofnun alþýðuskóla á Eiðum

Bjarni Jónsson:

Jeg hafði ekki hugsað mjer að segja neitt, en brtt. á þgskj. 316 kemur mjer til þess að standa upp. Þar er það lagt til að gera dönsku að skyldugrein við skólann. Jeg get ekki hugsað mjer það, að í sveitaskólum úti um landið þurfi að gera dönsku jafnhátt undir höfði sem móðurmálinu; ef menn vilja láta nema þar erlendar tungur, þá ætti að velja til þess hinar stærri tungur, ensku eða helst þýsku. En ef menn vilja endilega láta kenna þar einhverja Norðurlandatungu, þá ætti síst að velja þessa tungu; þá ætti að velja sænsku, en ekki dönsku; er hún bæði fallegra mál, eldra, skyldara íslensku og betra til framkvæmda, þar sem Svíar eru bæði stærri og menningarmeiri þjóð en Danir. En að minni hyggju á hjer engin tunga að vera skyldugrein, nema íslenska.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) þóttu undarleg ákvæði 4. gr. frv. Hún er að vísu ekki af mínum toga spunnin, og ekki þarf jeg að standa upp til þess að vitna, þótt háttv. þm. (E. A.) láti svo lítið að amast við þessu, en jeg vil samt benda á það, að löggjafarvaldið lætur sig skifta mörg lítilsverð atriði svo að ekki detta af þinginu gullhringarnir við að láta þetta til sín taka. Jeg vil og benda háttv. þm. (E. A.) á það að ekki er loku skotið fyrir það, að kennöndum verði gefinn kostur á stærri íbúð, ef þeir vilja greiða fyrir það.

Þar sem sama háttv. þm. (E. A.) þótti það óviðfeldið að tiltaka íbúðina með lögum og taldi þar með, að löggjafarvaldið sletti sjer fram í, hver nota ætti stagið til vinstri og hver til hægri, þá er það þó ekkert kynlegra en margt það, sem löggjafarvaldið lætur til sín taka, t. d. það, að því er illa við, að menn hengi sig, jafnvel í sjálfs sín stagi.