30.07.1917
Neðri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

93. mál, eignarnám eða leiga á brauðgerðarhús o.fl.

Einar Arnórsson:

Jeg mun ekki karpa lengi við háttv. þm. Dala. (B. J.). Hann neitaði því bæði fyrst og síðast, að þetta væri ályktun frá meira til minna, eða með öðrum orðum, hann bæði byrjaði og endaði á rangri staðhæfingu. Jeg skal taka dæmi. Háttv. þm. Dala. (B. J.) og jeg eigum dýra lóð hjer í bænum. Almenningsheill krefst þess, að bæjarstjórn taki lóðina á leigu um tíma sem dýrtíðarráðstöfun, t. d. ef bærinn ræki fiskiútveg, bæjarmönnum til bjargar. Jeg vil þá heldur, að mín dýra lóð sje tekin á leigu um stundarsakir, en missa hana um alla eilífð. (B. J.: Atvinna er annað en lóð). Lóðin getur staðið í því sambandi við atvinnu mína og viðskifti, að þessi tilfelli verði alveg hliðstæð. Þetta veit háttv. þm. Dala. (B. J.) eins vel og jeg og aðrir. Svo kom háttv. þm. Dala. (B. J.) með þá mótbáru, að þetta gæti aldrei orðið bætt, af því að klaufar mundu reka það fyrir bæjarfjelagið. En ef háttv. þm. Dala. (B. J.) er góður bakari, koma skiftavinirnir fljótt aftur. (B. J.: Það er óvíst; fleiri bakarar geta verið góðir). Að matsmenn meti yfirleitt ranglega veit jeg ekki á hverju hann byggir.

(B. J.: Reynslunni). Háttv. þm. Dala. (B. J.) hefir naumast leyfi til að slá slíku fram. (B. J.: Hefi sagt það og stend við það). Jeg vil heldur halda mjer við gömlu regluna, að allir sjeu taldir rjettlátir, þar til hið gagnstæða er sannað. (B. J.: En reynslan?) Reynslan sýnir, að matsmenn hjer gera sjer alment alt far um að vera áreiðanlegir, og þeir menn munu venjulegast valdir af dómstólum, sem bestir og færastir eru taldir. (B. J.: Jeg mótmæli öllu þessu. Það er rangt). Það er venja í málfærslu að enda á því að mótmæla. (B. J.: Jeg á hjer við málfærslumann). Svo sagði háttv. þm. Dala. (B. J.), að hús og áhöld gætu vel skemst á meðan eignarnemi hefði þau. Nefndin hefir gert ráð fyrir því, og þess vegna ákveðið í frv., að spjöllin skuli metin og lögnemi greiða skaðann. Býst jeg nú við, að eigi verði langar umr. úr þessu, þar sem við háttv. þm. Dala. (B. J.) erum báðir búnir að tala okkur dauða.