08.08.1917
Efri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

93. mál, eignarnám eða leiga á brauðgerðarhús o.fl.

Frsm. (Karl Einarsson):

Nefndin, sem hafði mál þetta til meðferðar, áleit, að þörf væri á að flýta því sem mest, og hefir því afgreitt það eins fljótt og hún gat.

Nefndinni finst að vísu sumar greinar frv. nokkuð harðar í garð brauðgerðarmanna, en verður þó að mæla með, að það verði samþ., því að svo getur farið, að verð brauða breytist enn þá, og þá getur staðið svo á, að erfitt verði fyrir viðkomandi sveitarfjelög að greiða fram úr vandræðunum, ef heimild sú, er frv. þetta hefir að geyma, verður eigi veitt.

Þá hefir nefndin lagt til, að gerðar verði nokkrar breytingar á frv. Það eru, eins og brtt. bera með sjer, aðallega orðabreytingar, t. d. í 5. gr. 1. málsgrein. Þar gat nefndin ekki felt sig við, að talað væri um að áfrýja matsgerð, og leggur því til, að sett sje »ekki hlíta« í staðinn fyrir »áfrýja«. Þá er 6 gr. frv. Þar er talað um að yfirheyra menn; það gat nefndin ekki heldur felt sig við, að þessir matsmenn yfirheyri fólk eins og vitni, og leggur því til, að því verði breytt, enda liggur hegning við að gera það rangt

Loks eru 2 efnisbreytingar, þó ekki mikils verðar, en heldur til hæginda fyrir eigendur, nefnilega að leigan sje borguð fyrirfram, en ekki eftir á, og ef hús eru tekin eignarnámi, þá sje uppsögn bundin við þrjá mánuði.

Jeg skal svo leyfa mjer að óska þess, að frv. þetta nái fram að ganga.